Travelshift samstæðan, sem rekur Guide to Iceland, Guide to Europe og fleiri markaðstorg, tapaði 215 milljónum króna í fyrra en árið áður tapaði félagið 160 milljónum. Tekjur voru 2.636 milljónir árið 2021, samanborið við 1.621 milljónir árið 2020. Yfir 90% af tekjum árið 2021 komu fram á seinni hluta ársins samhliða losun ferðatakmarkana til Íslands. Þessar takmarkanir hafa nú verið afnumdar að fullu. Viðskiptaaðstæður árið 2022 eru því hagstæðar og bókunarstaða fyrir árið 2022 sterk að sögn Dave Stewart, framkvæmdastjóra Travelshift.

„Fyrirtækið hefur haldið áfram að fjárfesta í hugbúnaðarþróun til að ná söluvexti á alþjóðavísu. Nafni félagsins var breytt í Travelshift úr Guide to Iceland til að endurspegla áframhaldandi umskipti þess úr markaðstorg sem markaðssetur og endurselur íslenska ferðaþjónustu, í ferðatæknifyrirtæki sem hefur þróað alþjóðlega lausn,“ segir Stewart.

„Sem hluti af þessari stefnu hefur nú verið hleypt af stokkunum vefsíðuna guidetoeurope.com þar sem ferðamenn geta bókað frí alls staðar í Evrópu. Gert er ráð fyrir að fjárfestingar árið 2021 verði að veruleika á þessu ári þar sem við kynnum Guide to Europe og gerum ráð fyrir að geta byggt á þekkingu fyrirtækisins til að ná umtalsverðum vexti á evrópskum markaði,“ bætir Stewart við.

Eigið fé nam 1.013 milljónum í árslok 2021, en til samanburðar var eigið fé 1.228 milljónir í lok ársins 2020. Alls var fjárfest fyrir 488 milljónir í rannsóknum og þróun árið 2021, þar sem sérsniðinn hugbúnaður og hugverkaeignir voru smíðaðar.

Stjórn Travelshift bendir einnig á að horfur fyrir Guide to the Philippines, sem er sameiginlegt verkefni með Philippine Airlines, séu nokkuð bjartar þar sem Filippseyjar eru nú að opna landamæri sín fyrir ferðamönnum í kjölfar mjög strangra COVID-19 takmarkana sem settar voru árið 2020.