*

laugardagur, 5. desember 2020
Frjáls verslun 24. desember 2019 17:02

Erfið fæðing, fall og endurreisn

Á fyrstu árum íslensks hlutabréfamarkaðar var veltan lítil sem og markaðurinn — fyrsta hlutafélagið var skráð í nóvember 1990.

Ástgeir Ólafsson

Þrátt fyrir að saga íslenska hlutabréfamarkaðarins sé ekki ýkja löng er óhætt að segja að hún hafi verið litrík. Markaðurinn fór hægt af stað en árið 1996 stóð hann undir um 19% af vergri landsframleiðslu. Um mitt ár 2007 hafði markaðurinn vaxið gífurlega og var á þeim tíma ríflega 250% af landsframleiðslu áður en hann tók að riða til falls samhliða falli fjármálakerfisins en á síðasta áratug var stigið hægt og bítandi aftur á fætur.

Innlendur hlutabréfamarkaður er í raun og veru ekki nema á miðjum fertugsaldri. Þó að sögu íslenskra hlutabréfa megi rekja aftur til Innréttinganna á 18. öld þá nær saga hlutabréfaviðskipta í því formi sem þekkist í dag aðeins til ársins 1985 þegar Hlutabréfamarkaðurinn hf. var stofnaður og tók að kaupa og selja hlutabréf fjögurra íslenskra hlutafélaga fyrir eigin reikning á verði sem var auglýst vikulega í dagblöðum. Þessi fjögur fyrirtæki voru Eimskipafélag Íslands, Flugleiðir, Iðnaðarbankinn og Verslunarbankinn auk þess sem bréf Hampiðjunnar bættust skömmu seinna við listann.

Sama ár var Verðbréfaþing Íslands, sem seinna varð Kauphöll Íslands, stofnað í samvinnu nokkurra banka og verðbréfafyrirtækja með forgöngu Seðlabanka Íslands en hlutabréfaviðskipti hófust þó ekki á þinginu fyrr en í byrjun tíunda áratugarins. Viðskipti með ríkistryggð ríkisskuldabréf hófust á þinginu árið 1986 auk þess sem skráning húsbréfa hófst árið 1990. Voru þetta einu skráðu verðbréfin á þinginu fyrstu árin og uppistaðan í viðskiptum allt til ársins 1993.

Á fyrstu árum íslensks hlutabréfamarkaðar var veltan lítil sem og markaðurinn. Í fyrstu opinberu tölum Seðlabankans yfir skráð verð mæti markaðshluta frá því í janúar 1990 nam skráð markaðsverðmæti 11,8 milljörðum króna eða um 3,2% af vergri landsframleiðslu. Það ár þrefaldaðist hins vegar markaðsverðmæti skráðra hlutabréfa og nam í lok ársins 32,6 milljörðum eða um 8,8% af vergri landsframleiðslu.

Árið 1990 var fyrsta hlutafélagið skráð á markað Verðbréfaþingsins (VÞÍ) þegar Olís reið á vaðið í nóvember það ár. Það var þó ekki fyrr en einu og hálfu ári seinna sem félögum á markaðnum tók að fjölga en alls voru 10 hlutafélög skráð á hlutabréfamarkað VÞÍ árið 1992. Þar á meðal voru sem dæmi Marel, Flugleiðir og Grandi (síðar HB Grandi og nú Brim).

Í maí sama ár hóf Opni tilboðsmarkaðurinn (OTM) starfsemi en um var að ræða samstarf stærstu verðbréfafyrirtækja landsins fyrir hlutabréf. Í lagalegum skilningi taldist OTM þó ekki sem skipulagður tilboðsmarkaður enda giltu engar reglur um hlutabréf hans eða upplýsingagjöf og neytendavernd var engin. VÞÍ tók að sér að reka markaðinn en hann var byggður á viðskiptakerfi sem Kaupþing hafði sett á laggirnar undir lok árs 1991.

Fyrst um sinn voru flest þau fyrirtæki sem verslað var með á verðbréfamarkaði á OTM en tíndust svo eitt af öðru yfir á skrá VÞÍ. Eftir því sem fleiri fyrirtæki skráðu sig á markað Verðbréfaþingsins dró úr mikilvægi þessa óskráða markaðar og í júní 1998 hætti VÞÍ að birta upplýsingar um viðskipti og verðtilboð á markaðnum og verður ekki vikið nánar að sögu þess markaðar hér.

Milli áranna 1992 og 1996 voru að meðaltali 6 félög á ári skráð á markað VÞÍ og í lok árs 1996 voru þau orðin 32 talsins og nam markaðsvirði þeirra 93,5 milljörðum eða um 18,9% af VLF. Skráningum tók hins vegar að fjölga verulega næstu ár og á árinu 1997 voru 19 félög skráð, 16 árið 1998 og 8 til viðbótar árið 1999 en þá voru skráð félög á markaði 75 talsins og höfðu þá og munu líklega aldrei verða fleiri. Í lok árs 1999 nam markaðsvirði þessara félaga tæplega 370 milljörðum króna eða um 57% af VLF og hafði tæplega fjórfaldast á þremur árum.

Árið 2000 gerðist það í fyrsta sinn að skráðum félögum fjölgaði ekki og á næstu árum tók þeim að fækka sem kom til af því að samruni og yfirtökur urðu algengari sem leiddi til afskráninga félaga. Þess má þó geta að á milli áranna 1998 og 2000 sextánfaldaðist velta með hlutabréf og fór úr 12,7 milljörðum í 198,9 milljarða. Í árslok 2002 hafði félögunum fækkað í 64 en samt sem áður jókst markaðsvirði þeirra um þriðjung milli áranna 2000 og 2002. Þess má geta að 1. júlí 2002 tók Verðbréfaþingið upp nafnið Kauphöll Íslands.

Það sem fer upp kemur niður aftur 

Skráðum félögum hélt áfram að fækka en í kjölfar einkavæðingar ríkisbankanna sem lokið var árin 2002-2003 og útrásarinnar sem henni fylgdi tók íslenska fjármálakerfið að vaxa á ógnarhraða og var innlendur hlutabréfamarkaður þar ekki undanskilinn. Í lok árs 2003 nam heildarmarkaðsvirði í Kauphöllinni um 659 milljörðum króna eða um 75,2% af VLF.

Ári seinna hafði fyrirtækjum á markaði fækkað um 14 en þrátt fyrir það jókst markaðsvirði skráðra félaga um 64% og nam 1.084 milljörðum. Í lok árs 2005 hafði félögum fækkað um 8 til viðbótar en markaðsvirðið jókst um 68% milli ára og stóð í 1.816 milljörðum eða um 171,5% af VLF. Árið 2006 jókst markaðsvirðið enn frekar eða um 44% milli ára og nam 2.621 milljarði en skráðum félögum hafði þá fjölgað um 3 og var markaðsvirðið þá orðið rúmlega tvöfalt hærra en verg landsframleiðsla þess árs.

Heildarmarkaðsvirði hlutabréfa í Kauphöllinni náði svo sögulegu hámarki sínu í lok júlí árið 2007 þegar það nam 3.636 milljörðum króna eða um 264% af VLF og var auk þess tæplega þrefalt hærra en staða markaðsskuldabréfa. Markaðsvirðið hafði þá aukist um 39% frá áramótum og ríflega nífaldast frá lok árs 2000. Undir lok sama árs nam samanlagt markaðsvirði 2.570 milljörðum og hafði þá lækkað um 29% frá hámarkinu í júlí.

Þess ber þó að geta að bréf Actavis voru afskráð úr Kauphöllinni í ágúst árið 2007. Skráð félög í lok ársins voru 33 talsins en þeim hafði þá fjölgað um sjö frá árinu 2005. Þess má geta að árið 2006 festi kauphallarsamstæðan OMX kaup á Kauphöll Íslands en OMX var svo keypt af Nasdaq árið 2007 og ber í dag nafnið Nasdaq Iceland þó að kauphallarnafnið hafi þó haldið sér í daglegu tali.

Markaðurinn hélt áfram að minnka á árinu 2008 bæði vegna afskráninga fimm félaga í júní það ár en þó helst vegna þess að óróa var varið að gæta á fjármálamörkuðum um allan heim sem smitaðist svo sannarlega til Íslands. Í lok mars 2008 stóð heildarmarkaðsvirði í 2.084 milljörðum eða rúmlega 150% af VLF en hafði lækkað um 19% frá lok árs 2007. Í lok júní hafði markaðsverðið lækkað um 34% frá áramótum en stærsti skellurinn kom svo í hinum örlagaríka októbermánuði árið 2008 en í þeim mánuði fór markaðsvirði skráðra félaga úr 1.334 milljörðum í 247 milljarða.

Hrunið varð til þess að hlutabréfamarkaðurinn þurrkaðist nánast út auk þess sem lítil viðskipti voru með þau félög sem eftir voru. Frá október 2008 til júlí 2009 hurfu 10 félög af markaðnum og flest þeirra vegna gjaldþrots. Markaðurinn náði lágmarki sínu í mars 2009 þegar það nam 174 milljörðum króna eða um 11% af VLF auk þess sem úrvalsvísitalan lækkaðu um 95% frá júlí 2007 til apríl 2009.

Endurreisnin hefst 

Segja má að endurreisn hlutabréfamarkaðarins hafi hafist í desember árið 2011 þegar Hagar voru skráðir á aðallista Kauphallarinnar. Reginn, Eimskip og Fjarskipti (nú Sýn) bættust við árið 2012 og VÍS, TM og N1 bættust svo við árið 2013. Í lok þess árs nam heildarmarkaðsvirði 583 milljörðum króna eða um 30% af VLF og hafði tæplega þrefaldast frá árslokum 2009.

Skráð félög voru þá 18 talsins en eru þá talin með félög skráð á First North markaðinn auk þess sem nokkur færeysk félög auk Century Alumnium voru skráð á markað Kauphallarinnar. Árið 2014 bættist Sjóvá inn á aðallista Kauphallarinnar auk þess sem HB Grandi (Brim) færðist af First North yfir á aðallistann. Árið 2015 bættust fasteignafélögin Reitir og Eik við markaðinn auk Símans og í lok ársins hafði markaðsvirðið fimmfaldast frá 2009, aukist um 54% frá fyrra ári og nam 1.049 milljörðum króna eða um 45,7% af VLF en úrvalsvísitala Kauphallarinnar hækkaði um 43% það ár auk þess sem skráð félög voru orðin 20 talsins.

Árið 2016 bættist Iceland Seafood inn á First North markaðinn auk Skeljungs á aðalmarkinn. Í lok árs 2017 hafði heildarmarkaðsvirðið hins vegar lækkað um 21% frá 2015 og var um 31,5% af VLF en þess ber að geta að bréf Össurar voru afskráð af markaði í nóvember það ár. Á síðasta ári bættust svo Kvika banki og Heimavellir við markaðinn auk þess sem Arion banki var tvískráður hér á landi og í Svíþjóð en um var að ræða langstærstu skráningu á íslenska hlutabréfamarkaðinn frá hruni. Í lok árs 2018 nam heildarmarkaðsvirði 960 milljörðum króna eða um 34,1% af VLF.

Það sem af er þessu ári hefur markaðurinn svo tekið töluvert við sér með Marel í fararbroddi eftir nokkuð mögur ár þar á undan. Í lok júlí nam virði markaðarins 1.187 milljörðum króna eða um 42,2% af VLF og hefur markaðsvirðið ekki verið hærra frá hruni. Fjöldi félaga á mörkuðum Kauphallarinnar er nú 24 talsins, 20 á aðallista og 4 á First North en Iceland Seafood er það síðasta til að bætast við á aðallista.

 

Nánar er má lesu um sögu Kauphallarinnar í bókinni 300 stærstu sem var að koma út. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér.