Þar sem forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á morgun eru byggðar á þeim grunni að það séu ríkin sem séu að velja forsetann snýst baráttan að mestu um að ná sigri í nokkrum lykilríkjum þar sem mjótt er á mununum og fá þá alla kjörmenn fylkisins.

Kjörmennirnir, sem síðan velja forsetann formlega, fara því í flestum tilvikum allir til þess sem nær meirihluta í fylkinu, en fjöldi þeirra er nokkuð hlutfallslegur eftir íbúafjölda

Þarf á ákveðnum sigrum að halda til að eiga möguleika

Líklegasta leið Donald J. Trump til að sigra forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á morgun er að halda í tvö fylki sem hart er barist um en Mitt Romney náði sigri í fyrir fjórum árum, það er Norður Karólínu og Arizona og að hann nái sigri í þremur fylkjum sem Barack Obama náði, Florida, Ohio og Iowa.

Ef hann tapar í einhverjum af þessum ríkjum myndi það gera honum mjög erfitt fyrir að ná þeim 270 kjörmönnum sem hvor frambjóðandi þarf að ná til að geta verið kosinn forseti.

Ólíklegri leið til sigurs

Hins vegar ef Trump myndi ná sigri í annað hvort Pennsylvaníu eða Michigan en þar hafa demókratar sigrað síðustu sex skipti í röð, þá hefði hann efni á að tapa Norður Karólínu og enn átt möguleika á að sigra kosningarnar.

En þó Trump héldi þessum fimm fyrstnefndu fylkjum ásamt sigri 2. héraði Maine sem skiptir sínum kjörmönnum niður milli flokkanna væri hann samt sem áður eingöngu kominn með 260 kjörmenn.

Þarf samt 10 kjörmenn til viðbótar

Þá þyrfti hann að fá 10 fleiri kjörmenn á einhvern hátt. Ef hann myndi ná þeim fjórum sem New Hampshire kýs og þeim sex sem koma frá Nevada væri það komið. Einnig væru möguleikar fyrir hann að ná níu kjörmönnum frá Colorado, eða þeim 15 sem eru frá Michigan eða 20 frá Pennsylvaníu.

Á síðustu tveimur sólarhringum hefur Trump verið á ferð og flugi um landið, Colorado, Michigan, jafnvel Minnesota, til að reyna að ná þeim aukaatkvæðum sem hann þarf á að halda.