Máli gegn tveim einstaklingum sem ákærðir voru fyrir peningaþvætti, var vísað frá dómi af Landsrétti þar sem talið var skorta formsatriði er varðar skýrleika í ákæru. Þrátt fyrir að einstaklingarnir gátu ekki gert grein fyrir yfir 60 milljón krónur í órekjanlegum tekjum þá skorti vísun í refsivert brot sem uppruna teknanna að mati dómsins. Helgi Magnús Gunnarsson aðstoðarríkissaksóknari telur það miður hve mikill áskilnaður er gerður til sönnunar á augljósu peningaþvætti en ákærðu sögðu að um spilakassa vinning væri að ræða.

Málavextir voru þeir að rekjanlegar tekjur einstaklinganna námu rúmlega 37 milljónir króna á tímabilinu 2013-17 en rekjanleg útgjöld voru yfir 97 milljónir króna á sama tímabili, eða um 60 milljón króna munur á tekjum og útgjöldum. Viðkomandi gáfu að mati ákæruvaldsins ekki trúverðugar skýringar á uppruna umræddum 60 milljón króna og því var ákært fyrir peningaþvætti. Í vitnisburði ákærðu neituðu aðilarnir að standa í peningaþvætti og báru fyrir sig að um vinninga úr spilakössum væri að ræða en það var þó talið ósannað af þeirra hálfu.

Þrátt fyrir að aðilarnir gátu ekki gefið viðhlítandi ástæður fyrir tekju og eyðslu muninum var niðurstaða Landsréttar að málinu skyldi vísað frá. Var það á þeim forsendum að ekki var með neinum hætti lýst ætluðum refsiverðum brotum sem tekjurnar voru upprunar frá. Vísaði Landsréttur í mál Hæstaréttar Íslands nr. 28/2021 hvar sakfellt var fyrir peningaþvætti á grundvelli ákæru þar sem hinni refsiverðu háttsemi var lýst þannig að ákærði hefði „um nokkurt skeið fram til“ ákveðins tíma aflað sér ávinnings með nánar tilgreindum hætti svo sem „með sölu og dreifingu ótiltekins magns ávana-og fíkniefna“ eða „með sölu og dreifingu ótiltekins magns af lyfseðilsskyldum lyfjum“.

Munurinn á umræddu máli Landsréttar og máli Hæstaréttar nr. 28/2021 er sá að ekki var vísað til frumbrots ákærðu, eins og t.d. sölu fíkniefna eða smygls en það er meginregla sakamálaréttarfars að slíkt sé gert. Taldi Landsréttur því skorta sönnun á tengingu glæpastarfsemi.

Spurning hvaða kröfur eigi gera til sönnunar
Helgi Magnús Gunnarsson aðstoðarríkissaksóknari segir að um erfiða stöðu sé að ræða og bendir á að ef fólk fær fé í hendurnar og getur ekki gert grein fyrir þeim þá er nú yfirleitt líkur með því að féð sé fengið með ólögmætum hætti og er þá að minnsta kosti um skattalagabrot að ræða.

„En við erum að lenda hérna í að menn, sem hafa kannski ekki verið dæmdir enn fyrir glæp, eru í gífurlegri eignamyndun án þess að geta gert grein fyrir því hvaðan tekjurnar stafa og miðað við þetta mál þá komast þeir upp með slíkt athæfi svo lengi sem það er ekki hægt að sýna fram á tengingu við refsiverða háttsemi af þeirra hálfu sem verður að teljast miður.“ segir Helgi Magnús.

Spurður út í spilakassa þá segir hann það þekkt að þeir séu notaðir í peningaþvætti. Einstaklingar geta þannig sett 100 þúsund krónur í kassa, spilað leikinn með smávægilegu tapi eða ávinning og svo tekið út en alltaf er um hreinan vinning að ræða. Þeir eru því ekki mikið að hjálpa til í þessum málum.