Gengi rafmyntarinnar hefur lækkað nokkuð skarpt í vikunni og stendur nú í um 42 þúsund dölum. Hefur gengið ekki verið lægra síðan í lok september á síðasta ári. Í byrjun vikunnar stóð gengi rafmyntarinnar í um 47 þúsund dölum.

Samkvæmt frétt BBC eru tveir þættir sem helst hafa valdið því að gengi rafmyntarinnar hefur leitað niður á við. Annar áhrifavalurinn ku vera yfirvofandi stýrivaxtahækkun vestanhafs, en fundargerð nýlegs fundar Seðlabanka Bandaríkjanna þykir benda til þess að gripið verði til vaxtahækkana í landinu, fyrr en áætlað hafði verið. Mun það hafa leitt til keðjuverkunar meðal hefðubundinna fjárfesta sem eiga Bitcoin, sem í kjölfarið hafa hafist handa við að leita í öruggari fjárfestingarkosti á kostnað rafmyntarinnar.

Pólitískur órói í Kazakhstan er sagður hinn orsakavaldur þess að gengi rafmyntarinnar hefur farið lækkandi. Það kann að koma spánskt fyrir sjónir að slíkt leggi stein í götu rafmyntarinnar, en það er þó svo að um fimmtungur Bitcoin „graftar“ (e. mining) á sér stað í Kazakhstan.

Íbúar landsins hafa flykst út á götur til þess að mótmæla háu eldsneytisverði. Upp úr sauð í mótmælunum og lögðu mótmælendur m.a. undir sig byggingar í höfuðborginni Almaty. Auk þess lá internet samband niðri í landinu um tíma í vikunni og mun það hafa haft áhrif niður Bitcoin keðjuna.