Samkvæmt greiningu Goldman Sachs reynist framleiðendum í þróuðum löndum nú erfiðara að velta hækkunum yfir á neytendur en áður. Þetta kemur fram í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

Framlegð evrópskra framleiðenda fer því minnkandi. Helstu ástæður þessara „erfiðleika“ framleiðendanna má rekja til hækkandi verðbólgu framleiðsluvara (e. supplier food price inflation) vegna hrávöruverðshækkana á sama tíma og almenn verðbólga (e. consumer price inflation) hefur verið mikil.

Í markaðspunktum segir að aukin verðbólga sem og dræm eftirspurn leiði því til þess að neytendur séu nú síður í stakk búnir til að taka á sig enn frekari verðhækkanir en almennt gengur og gerist þegar hagkerfin eru að vaxa. "Ef við yfirfærum svipaðar vangaveltur yfir á íslenska framleiðendur þá virðist sem þeir hafi notið góðs af lægri verðbólgu á árunum fyrir hrun. Staðan hefur hins vegar breyst þar sem svo virðist sem framleiðendur hér á landi hafi í auknum mæli tekið á sig skellinn af hækkandi hrávöruverði."