Það verða kaflaskil hjá Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur borgarfulltrúa eftir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Þorbjörg sóttist eftir fyrsta sæti á lista sjálfstæðismanna í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar en var kjörin í fjórða sætið. Hún ákvað að taka ekki sæti heldur sitja sem borgarfulltrúi til kosninga og snúa sér síðan að öðrum verkefnum. Hún hefur starfað með borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins í tólf ár, sem varaborgarfulltrúi í fjögur ár en aðalfulltrúi í átta ár. „Það er mjög spennandi að breyta til. Ég er búin að eiga alveg ótrúlega skemmtilegan og uppbyggilegan tíma og kynnast ógrynni af fólki í þessu stjórnmálavafstri. Bæði í gegnum Sjálfstæðisflokkinn og vinnuna í borgarstjórn,“ segir Þorbjörg Helga. Hún segir að hún muni sakna málefnanna og fólksins sem hún vann með en ekki dægurþrassins sem fylgir stjórnmálunum. „Erfiðast þykir mér að skilja við allt þetta fólk og þá fólkið í skólunum. Ég tel að ég hafi verið búin að öðlast traust og trúnað kennara og stjórnenda sem í dag virðast skorta traust á stjórnmálamönnum,“ segir Þorbjörg Helga. „Pólitíkin var ekki það sem ég þráði en mér fannst ég vera komin á þann stað að kennarar treystu mér og stjórnendur væru tilbúnir til þess að vinna með mér að einhverjum breytingum,“ bætir hún við.

Hefði getað staðnað
Þorbjörg Helga er ákveðin í svörum þegar hún er spurð að því hvers vegna hún tók ekki það sæti sem hún var kjörin í þegar prófkjörið fór fram í nóvember. „Ég bauð mig fram í fyrsta sæti til að leiða listann, ekki til að vera með. Ég taldi mig vera fullkomlega reiðubúna til þess, vera með reynsluna og mikilvæg mál á borðinu,“ segir hún og bætir við að það hafi verið kominn tími á breytingar hjá flokknum. Hún viðurkennir að hún hefði staðnað ef hún hefði haldið áfram í pólitíkinni án þess að ná því sæti sem hún stefndi að. „Alveg hiklaust og ég held að það sé mjög mikilvægt, annars vegar að sýna að konurnar eru ekki þarna upp á punt. Þær eru ekki bara til þess að hirða upp molana. Hins vegar að það er hægt að fara út úr pólitík, ekki bara sitja þarna í tugi ára,“ segir Þorbjörg. Hún sé þeirrar skoðunar að fólk geti orðið alltof samofið kerfinu. Fólk fari að hugsa um kerfið í stað þess að hugsa um hag þeirra sem stjórnmálamennirnir eigi að starfa í þjónustu fyrir, eins og börnin eða aldraða fólkið.

Ekki hlustað á unga fólkið
Þorbjörg Helga segist vera svona meðalbjartsýn á gengi Sjálfstæðisflokksins í komandi borgarstjórnarkosningum. Staðan muni skýrast betur þegar allir flokkar hafi stillt upp lista. „En mér sýnist verða ansi fáar konur oddvitar í borgarstjórn,“ segir Þorbjörg Helga og bætir við að það sé afturför. Hún segir ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn eigi mikið verk fyrir höndum að vinna fylgi ungs fólks. Einungis um 14% kjósenda í yngstu aldurshópunum styðji Sjálfstæðisflokkinn en flokkurinn sé með um 40% fylgi hjá elsta aldurshópnum. Sjónarmið hinna eldri í flokknum hafi orðið ofan á í mikilvægum málum, t.d í umhverfismálum og skipulagsmálum. „Það er ekki hlustað eins mikið á unga fólkið.“

Þegar Þorbjörg Helga er spurð að því hvað standi upp úr á þeim tólf árum sem hún hefur starfað að borgarmálum þá nefnir hún tvennt. Annars vegar hafi hún, sem fulltrúi í ferða- og menningarmálaráði, tekið þátt í að útnefna Þórarin Eldjárn sem borgarlistamann. Það hafi verið alveg einstaklega gaman. „Og hins vegar að hafa verið formaður leikskólaráðs og tryggja að fé fylgi hverju barni. Það var mikið átak og þurfti að reikna mjög lengi og mjög mikið. En núna er það fast í sessi að hvert barn, óháð því hvaða leikskóla það fer í, fær greitt,“ segir Þorbjörg Helga. Nú þurfi bara að passa upp á að þetta kerfi haldist.

Einbeitir sér að fjölskyldunni
Þorbjörg Helga á fjögur börn með Hallbirni Karlssyni, eiginmanni sínum. „Við fórum svona annan hring í lokin við hjónin, fengum tvær stelpur í lokin en áttum tvo stráka fyrir,“ segir hún. Stelpurna eru tveggja ára og fjögurra ára en strákarnir eru komnir á unglingsaldur. Það er því mikið um andvökunætur hjá fjölskyldunni. „En þetta er alveg yndislegt. Við erum alveg svakalega ánægð með þetta,“ segir Þorbjörg. Það sé mjög áhugavert að eiga eitt barn í ungbarnaleikskóla, annað í leikskóla, þriðja í grunnskóla og það fjórða í framhaldsskóla. Það sé mikið fagnaðarefni að geta einbeitt sér betur að þeim nú þegar hún sé að segja skilið við hlutverk borgarfulltrúans.

Rætt er við Þorbjörgu Helgu í blaðinu Áhrifakonur sem fylgdi Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .