Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara Íslands, stýrði sænska landsliðinu á fimm stórmót í röð áður en hann hélt á önnur mið og tók við Nígeríu. Hann lenti þó í erfiðri stöðu í aðdraganda landsleiks Svíþjóðar gegn Liechtenstein í undankeppni EM 2008 þegar tvær af stærstu stjörnum Svíþjóðar, Zlatan Ibrahimovic og Olof Mellberg, brutu agareglur ásamt einum liðsfélaga sínum er þeir fóru út á lífið að kvöldi til. Lars ákvað að leikmönnunum yrði gert að yfirgefa landsliðshópinn og halda heim og olli sú ákvörðun miklu umtali.

„Þetta var líklega ein erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið. Að senda leikmenn heim er eitt það versta sem maður getur gert, en við erum með mjög fáar reglur. Ef leikmenn brjóta reglur þurfa að vera ákveðnar afleiðingar. Ég vil ekki kalla þetta refsingu þó að á vissan hátt sé þetta refsing, en í svona tilfellum þarf maður að taka ákvörðun um hvað skal gera við leikmenn sem brjóta reglurnar," segir Lars í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið.

,,Í þetta skiptið ákváðum við að afleiðingarnar yrðu þær að þeir yrðu sendir heim. Ég held að flestir, þá sérstaklega stuðningsmenn, hafi séð að þetta var rétt ákvörðun. Ég get ekki sannað það vísindalega en ég upplifði viðbrögðin aðallega sem jákvæð,“ segir Lars. Hann hefur ekki upplifað nein vandamál þegar kemur að stjörnum íslenska liðsins.

„Í íslenska liðinu sýna bestu leikmennirnir virkilega gott fordæmi um það hvernig á að haga sér fagmannlega innan vallar sem utan. Þeir eru góðar fyrirmyndir og nánast allir leikmennirnir sem ég hef unnið með á Íslandi hafa verið með frábært hugarfar. Ef við horfum t.d. á Gylfa (Þór Sigurðsson), þá er hann einn af þekktustu leikmönnum liðsins, en hann leggur alltaf gríðarlega hart að sér, bæði í leikjum og á æfingum. Þegar bestu leikmennirnir eru með þannig karakter er starf þjálfarans mjög auðvelt.“

Ítarlegt viðtal við Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfara Íslands í knattspyrnu, má finna í Viðskiptablaði dagsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .