Ljóst er að síðustu dagar fyrir sumarfrí Alþingis verða erfiðir. Enn stendur til að reyna að koma hinum svokölluðu stóru málum ríkisstjórnarinnar í gegnum þingið en nú eru aðeins 13 starfsdagar eftir í þinginu og málin mörg hver enn í þingnefndum eftir fyrstu umferð umræðna.

Þau mál sem helst hafa verið áberandi eru breytt lög um stjórn fiskveiða, breytingar á stjórnarráðinu, tillögur stjórnlagaráðs að breyttri stjórnarskrá og rammaáætlun. Við þetta bætist vinna við lausn á vandamálum skuldsettra heimila en til stendur að leggja fram tillögur í þeim efnum í maí.

Þá eru nokkur minni mál, en þó veigamikil, sem bíða afgreiðslu en eru þó ekki í forgangi, s.s. ríkisábyrgð á Vaðlaheiðargöngum, frumvarp um Ríkisútvarpið og sala á ríkiseignum.

Í flestum af þessum svokölluðu stóru málum stendur stjórnarmeirihlutinn tæpt auk þess sem stjórnarandstaðan, fyrir utan Hreyfinguna, er andsnúin þeim. Búast má við mikilli hörku í báða bóga á næstu dögum og ekkert bendir til þess að ríkisstjórnin nái að klára fyrrnefnd mál. Þá kann að fara svo að þingið verði kallað saman aftur í suma, að öllum líkindum eftir forsetakosningar í lok júní. Það er þó í höndum forseta Alþingis.