Vafi leikur á því hvort kvikmyndin Reykjavík, sem til stóð að myndi skarta stórstjörnunum Michael Douglas og Christoph Waltz verði að veruleika. Þýska blaðið Bild segir að ástæðan sé sú að það vanti einfaldlega fjármagn.

Reykjavík á að fjalla um leiðtogafundinn sem fram fór í Höfða árið 1986. Þá hittust Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna, og Mikhail Gorbachev, leiðtogi Sovétríkjanna,  hér á landi á fundum sem talið er að hafi markað upphafið að endalokum Kalda stríðsins. Eðli málsins samkvæmt verður myndin tekin upp hér á landi að hluta, ef af henni verður. Til stóð að Waltz færi með hlutverk Gorbachevs en Michael Douglas með hlutverk Reagans.

Bild segir að upphaflega hafi staðið til að tökur hæfust núna í ár, en nú sé það útilokað. Samkvæmt upplýsingum sem Viðskiptablaðið hefur frá aðilum sem þekkja til í kvikmyndagerð var hugmynd að gerð myndarinnar upphaflega rædd á árunum 2009 og 2010. Síðan þá hafi áform um gerð hennar ýmist verið af eða á. Slíkt sé ekki óalgengt þegar um framleiðslu erlendra stórmynda sé að ræða. Því sé ekkert hægt að segja til um framtíð Reykjavíkur að svo stöddu.