Thorbjørn Jagland framkvæmdastjóri Evrópuráðsins flutti á dögunum erindið Öryggi í lýðræðisríkjum eftirlitskerfi mannréttindasáttmálans – áskoranir í Evrópu á fundi sem haldinn var í samvinnu Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytisins og Lögfræðingafélags Íslands. Þar vék hann meðal annars að áskorunum sem fylgja því að samfélög Evrópu eru að verða fjölbreyttari og benti á að Evrópa væri háð innflytjendum til að sinna ákveðnum störfum.

Í erindi sínu sagði Jagland að eitt það erfiðasta sem Evrópa stæði frammi fyrir í dag væri fjölbreytileikinn í mannlífinu. Sífellt fleiri koma til Evrópu með mismunandi trúarbrögð og hefðir. Hann sagði þetta vera erfiðara fyrir Evrópu en efnahagskreppan sem muni hverfa á braut og koma aftur. Staðreyndin væri sú að samfélaög eru að verða fjölbreyttari þegar kemur að menningu, trúarbrögðum og lífsviðhorfum og það muni ekki breyast, ólíkt efnahagsástandinu. Hann benti á að Evrópa sé háð innflytjendum til að sinna ákveðnum störfum. Aftur á móti hafa skoðunarkannanir sýnt að 60% aðspurðra sögðust ekki samþykkja þann fjölda innflytjenda sem væri að streyma inn. Kynþáttahatur og útlendingahatur hefur verið að aukast í Evrópu að undanförnu. Jagland sagði á fundinum að við þyrftum að breyta ímynd okkar á samfélaginu og hugsa til þess hvernig framtíðarsamfélag við óskum okkur.

Innflytjendur verða aldrei eins og innfæddir í Evrópu

Í samtali við Viðskiptablaðið, aðspurður um hvað hægt sé að gera til að bæta úr þessu, segir Jagland að lykilatriðið sé aðlögun þeirra sem komi inn í landið. Það þurfi að veita þeim aðgang að störfum og menntun. Auk þess þurfum við að breyta hugarfari okkar og skilja það að við þurfum á innflytjendum að halda til að viðhalda velferðarkerfinu okkar. Hann bendir á að í Evrópu sé sérstaklega erfitt fyrir innflytjendur að verða hluti af samfélaginu. Þegar innflytjendur koma til Bandaríkjana verða þeir strax Bandaríkjamenn, þetta gerist ekki til dæmis í Noregi eða Frakklandi þar sem innflytjendur verða aldrei eins og innfæddir, það tekur margar kynslóðir.

Útlendingahatur eykst í efnahagskreppum

Undanfarin ár hefur útlendingahatur vaxið og öfga hægriflokkar hafa komist til valda, aðspurður um hvers vegna hann telji að þetta sé að gerast núna bendir Jagland á að þetta megi tengja við efnhagskreppuna. Þegar erfiðleikar séu í efnahagslífinu upplifa landsmenn útlendinga sem ógn þegar kemur að störfum og velferðarkerfinu. Auk þess upplifi fólk útlendinga í dag einnig sem ógn að trúarbrögðum og menningu. Þessar ógnir séu ekki raunverulegar heldur eiga þær bara heima í huga fólks.

Aðspurður um hvernig hægt væri að gera innflytjendum kleift að fá störf fyrir sitt menntunarstig segir Jagland að vinnuveitendur þurfi að taka frumkvæði en auk þess þurfi hugarfar okkar að breytast, þetta snúist um fordóma. Hann telur þó að það muni taka langan tíma að draga úr fordómum gegn útlendingum.

Í erindi sínu vék Jagland að hryðjuverkum sem hann segir tengjast innflytjendum og fjölmenningu og koma að hluta til frá því að við erum að verða fjölbreyttari þjóðir. Hann sagði hryðjuverk vera nýja áskorun til að berjast gegn á grundvelli mannréttinda og laga. Hryðjuverk eru kannski ekki vandamál á Íslandi en séu raunveruleg ógn í Evrópu, nýlega megi benda á árásir í París og Kaupmannahöfn.

Bandaríkjamenn fóru ekki rétt að í baráttunni gegn hryðjuverkum

Jagland telur að Bandaríkin hafi ekki farið rétt að í baráttunni gegn hryðjuverkefum eftir 11. september. Í erindi sínu sagði hann það hafa verið mistök að hefja stríðið gegn hryðjuverkum með því að segja að fólk stæði annað hvort með Bandaríkjunum eða gegn þeim. Í staðinn hefði átt að takast á við hryðjuverk á grundvelli mannréttinda og laga. Aðferð Bandaríkjamanna hafi skapað mikla óánægju meðal múslíma sem hryðjuverkasamtök nýttu sér. Jagland sagði að ekki sé hægt að verja lýðræði án lýðræðislegra réttinda. Í Evrópuráðinu var sáttmáli samþykktur árið 2005 til að berjast gegn hryðjuverkum á grundvelli mannréttinda og laga. Í viðtali við Viðskiptablaðið sagði Jagland að verið væri að bæta við sáttmálann til aðlaga lögin að því að takast á við fólk sem hefur ekki framið glæp en hefur skipulagt hryðjuverkaárás. Verið sé að veita lagalegan grundvöll fyrir því.