Erlend hlutabréf hækkuðu almennt í Evrópu og Asíu í liðinni viku en lækkuðu í Bandaríkjunum. Hlutabréfavísitalan Dax í Þýskalandi hækkaði um 0,33%, FTSE í Bretlandi um 1,08% og Nikkei í Japan um 0,72%. S&P 500 í Bandaríkjunum lækkaði hins vegar um 0,61%. Þetta kemur fram í markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa.

Þar segir að nú sé erfiðu ári á hlutabréfamarkaði lokið þar sem nær allir markaðir lækkuðu þvert á spár helstu greiningaraðila. Ársins verði minnst fyrir skuldakreppu í Evrópu og minnkandi hagvaxtar um nær allan heim. Á árinu hafi heimsvísitala MSCI lækkað um 7,37%, Dax í Þýskalandi um 14,69% og OMXH25 í Finnlandi um 26,11%. Dow Jones í Bandaríkjunum var ein af fáum hlutabréfavísitölum sem hækkaði á árinu eða um 5,55%.

Bandarísku vísitölurnar Dow Jones og S&P 500 voru meðal 10 vísitalna (af 91 vísitölu sem Bloomberg mælir) sem stóðu sig best á árinu. Þrátt fyrir óvænta lækkun á lánshæfismati Bandaríkjanna hækkuðu 10 ára bandarísk ríkisskuldabréf um tæplega 17% á árinu eða töluvert meira en bæði gull og olía sem hækkuðu um 10,2% og 8,2% samkvæmt Reuter‘s fréttaveitunni að því er fram kemur í markaðsfréttum ÍV.

Reikna megi með að árið 2012 verði krefjandi á erlendum hlutabréfamörkuðum og enn eigi eftir að leysa úr erfiðum efnahagsmálum á evrusvæðinu. Starfsmenn JP Morgan séu þó bjartsýnir hvað varðar hlutabréf í Bandaríkjunum og nýmarkaðsríkjum. Þeir spái tæplega 20% hækkun á bandarískum hlutabréfum og 30% hækkun í nýmarkaðsríkjum.