*

laugardagur, 18. janúar 2020
Innlent 1. september 2018 16:01

Erfiður fjórðungur að baki

Afkoma stóru tryggingafélaganna dróst saman um 83% á fyrri helmingi þessa árs frá sama tíma í fyrra. Tveir stórbrunar á öðrum ársfjórðungi auk óhagstæðrar þróunar á verðbréfamörkuðum höfðu töluverð áhrif á afkomu félaganna.

Ástgeir Ólafsson
Sigurður Viðarsson forstjóri TM, Helgi Bjarnason forstjóri VÍS og Hermann Björnsson forstjóri Sjóvár.

Samanlagður hagnaður stóru tryggingafélaganna þriggja, VÍS, Sjóvár og TM nam 820 milljónum króna á fyrri helmingi þessa árs og dróst saman um tæplega 4 milljarða eða um 83% frá sama tímabili í fyrra. Hagnaður VÍS nam 552 milljónum króna á tímabilinu og dróst saman um helming, hagnaður Sjóvár nam 119 milljónum og dróst saman um 93% frá fyrri helmingi 2017 auk þess sem hagnaður TM dróst saman um 92% og nam 149 milljónum á fyrri helmingi ársins.

Drógust saman um helming 

Fjárfestingareignir félaganna þriggja námu 92,3 milljörðum króna í lok júní og drógust saman um 1,7 milljarða frá því í lok árs 2017. Samanlagðar fjárfestingartekjur félaganna þriggja námu 2.974 milljónum króna á fyrri hluta ársins en voru 6.080 milljónir á sama tíma í fyrra og drógust því saman um ríflega helming. Munaði þar sérstaklega um samdrátt á öðrum ársfjórðungi en samanlagðar fjárfestingartekjur námu 421 milljón á tímabilinu og drógust saman um 83,9% frá sama tíma í fyrra.

Þróunin var þó ólík á milli félaga. Fjárfestingartekjur VÍS námu 1.415 milljónum á fyrri helmingi ársins og jukust um 22,8% frá árinu 2017. Aðra sögu er hins vegar að segja af hinum tveimur félögunum. Fjárfestingartekjur Sjóvár drógust saman um 79,1% milli ára og námu 488 milljónum á fyrstu sex mánuðum ársins. Annar ársfjórðungur var félaginu erfiður en fjárfestingartekjur voru neikvæðar á fjórðungnum um 305 milljónir en voru jákvæðar um 870 milljónir króna á sama ársfjórðungi í fyrra. Þá námu fjárfestingartekjur TM 1.071 milljón á fyrri helmingi ársins og drógust saman um 58,7% frá því í fyrra.

Þess ber þó að geta að samanburður fjárfestingartekna milli ára er ekki fullkominn þar sem taka verður tillit til stærðar eignasafnsins og ávöxtunar þess. Ávöxtun fjárfestingareigna var 4,1% á fyrri helmingi ársins hjá VÍS, 0,7% hjá Sjóvá og 3,9% hjá TM.

Samsett hlutfall hækkar 

Eigin iðgjöld félaganna þriggja sem eru skilgreind sem tekjufærð iðgjöld að frádregnum hluta endurtryggjenda í iðgjaldatekjum námu samtals 26,3 milljörðum á fyrri hluta ársins og jukust um 8,1% milli ára. Nam hækkunin 8,3% hjá VÍS, 10,3% hjá Sjóvá og 5,7% hjá TM. Á sama tíma jukust eigin tjón, sem eru tjón tímabilsins að frádregnum hluta endurtryggjenda í tjónum tímabilsins, um 13,8% á tímabilinu úr tæplega 19 milljörðum í rúmlega 21,5 milljarða króna. Hækkun eigin tjóna var mest hjá VÍS eða 17,9% á meðan hækkunin var 11,9% hjá Sjóvá og 10,8% hjá TM.

Hækkunin hjá VÍS skýrist alfarið af hækkun eigin tjóna á öðrum ársfjórðungi. Eigin tjón félagsins drógust saman á fyrsta ársfjórðungi þessa árs frá árinu áður en jukust um 1.486 milljónir króna milli annars ársfjórðungs 2017 og 2018 eða um 48,5%. Stóran hluta hækkunarinnar má rekja til tveggja stórra bruna sem urðu í Miðhrauni og í Perlunni á ársfjórðungnum. Frá árinu 2010 hefur félagið verið tryggjandi í þremur brunum þar sem tjón hefur farið yfir 300 milljónir króna. Tveir af þessum þremur brunum voru á síðasta ársfjórðungi.

Samanlagður rekstrarkostnaður félaganna þriggja nam 6.748 milljónum króna á tímabilinu og jókst um 9,4% milli ára. Hækkunin var þó langmest hjá VÍS þar sem hún nam 17,4% á meðan hækkunin nam 4,6% hjá Sjóvá og 4,4% hjá TM.

Verri afkoma félaganna þriggja af grunnrekstri á fyrri helmingi ársins endurspeglast í samsettu hlutfalli þeirra. Samsett hlutfall er kennitala sem mælir arðsemi vátryggingarreksturs og er samanlagður tjónakostaður, rekstrarkostnaður og endurtryggingakostnaður sem hlutfall af iðgjöldum. Fari hlutfallið yfir 100% er vátryggingarreksturinn ekki ábatasamur. Samsett hlutfall var 104,8% að meðaltali á fyrri helmingi ársins og hækkaði um 3,8 prósentustig frá sama tíma í fyrra. Hjá VÍS hækkaði hlutfallið um 8 prósentustig milli ára og var 103,3% á fyrri helmingi ársins. Hlutfallið hækkaði um 3,9 prósentustig hjá TM og var 109,9%. Hjá Sjóvá lækkaði hlutfallið hins vegar, var 101,3% samanborið við 101,9% í fyrra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Sjóvá Tryggingafélög TM VÍS