*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 22. janúar 2017 12:25

Erfiður og sveiflukenndur rekstur

Rekstur byggingafyrirtækja er sveiflukenndur og stjórnendur kalla eftir auknum stöðugleika fyrir verslunar- og þjónustufyrirtæki landsins.

Ásdís Auðunsdóttir
Haraldur Guðjónsson

Íslensk byggingavörufyrirtæki hafa að undanförnu verið að rétta úr kútnum eftir erfið ár í kjölfar bankahrunsins en stærð og umfang starfseminnar er þó langt frá því sem áður var. Rekstur byggingafyrirtækja er sveiflukenndur og stjórnendur kalla eftir auknum stöðugleika fyrir verslunar- og þjónustufyrirtæki landsins til að tryggja farsæld til framtíðar.

Mikil umbrotaár að baki hjá Húsamiðjunni

Húsasmiðjan hefur líkt og keppinautur hennar, BYKO, bætt stöðu sína verulega eftir erfið ár í kjölfar efnahagshruns. Eftir nánast samfelldan taprekstur frá árinu 2008 skilaði félagið 85 milljóna króna hagnaði árið 2014 og 83 milljónum árið 2015. Á sama tíma hefur eigið fé og rekstrartekjur félagsins einnig batnað.

Það er óhætt að segja að efnahagshrunið hafi verið örlagaríkt fyrir Húsasmiðjuna. Árið 2007 skilaði félagið um 969 milljóna króna hagnaði en ári síðar var staðan orðin töluvert önnur og reksturinn neikvæður um 12,7 milljarða króna. Spiluðu langtímaskuldbindingar félagins þar stórt hlutverk enda að stærstum hluta í erlendum gjaldmiðlum. Á þeim tíma voru Hagar og félagið Saxsteinn stærstu hluthafar félagsins. Í kjölfar þeirrar stöðu sem upp var komin í íslensku efnahagslífi drógust umsvif Húsasmiðjunnar verulega saman á seinni hluta ársins 2008 og á árinu 2009.

Félagið greip til ýmissa aðgerða með það að markmiði að draga úr kostnaði og bæta rekstrarhæfi félagsins og hóf viðræður við viðskiptabanka sinn, gamla Landsbankann, um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins með það fyrir augum að endurreisa eigið fé félagsins. Það dugði þó að lokum ekki til og eignaðist Landsbankinn að endingu hlutabréf félagsins. Nýtt félag var svo stofnað um Húsasmiðjuna árið 2011 og er allt hlutafé þess í dag í eigu félagsins Bygma Ísland.

Rekstur byggingavörufyrirtækja erfiður og sveiflukenndur

Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, segir viðskiptaumhverfi byggingavörufyrirtækja í heildina gott í dag. Mikið sé að gera hjá byggingaverktökum bæði við íbúðabyggingar ásamt því að eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði sé að aukast.

Í greininni sem birtist í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins var ranglega ritað að félagið Norvík væri eigandi Húsasmiðjunar. Leiðréttist það hér með og biðst Viðskiptablaðið afsökunar á mistökunum. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.