Helstu niðurstöður nýrrar þjóðhagsspár fjármálaráðuneytisins eru að erfiðleikar og viðsjár á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hafa í auknum mæli sett mark sitt á þróun efnahagsmála hér á landi eins og annars staðar.

Í spánni er gert ráð fyrir að þjóðarútgjöld lækki um 3,1% árið 2008 en áætlað að aukinn álútflutningur og samdráttur í innflutningi skili landsmönnum 1,7% hagvexti það ár. Frekari samdráttur þjóðarútgjalda og minni aukning í útflutningi leiðir til þess að landsframleiðsla dregst saman um 1,6% árið 2009. Árið 2010 er gert ráð fyrir að vöxtur þjóðarútgjalda verði lítillega jákvæður og að hagvöxtur verði 1,1% það ár.

Þrátt fyrir verulegan bata í vöru- og þjónustuskiptajöfnuði er reiknað með að viðskiptahallinn verði 16,8% af landsframleiðslu árið 2008 vegna aukins halla á þáttatekjujöfnuði. Vegna minni halla á vöru- og þjónustujöfnuði er spáð að viðskiptahallinn nemi 8,2% árið 2009 og 6,0% árið 2010.

Áætlað er að meira jafnvægi muni nást á vinnumarkaðinn á næstu árum. Reiknað er með að atvinnuleysi verði að meðaltali 1,2% af vinnuafli árið 2008 en spáð að það aukist á komandi misserum og að það verði 2,7% árið 2009 og 3,8% af vinnuafli árið 2010.

Vegna gengislækkunar krónunnar á árinu ásamt viðvarandi spennu á vinnumarkaði er áætlað að verðbólga aukist í 11,5% að meðaltali á þessu ári. Spáð er að verðbólga dragist hratt saman á næsta ári og verði 5,7% að meðaltali. Reiknað er með að 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands náist á árinu 2010 og að verðbólga verði að meðaltali 2,8% það ár.

Spáin grundvallast á forsendum um þróun gengis krónunnar sem háðar eru mikilli óvissu. Þegar spánni var lokað fyrr í september var miðað við að hún yrði 149 stig að meðaltali í ár sem jafngildir um 26% hækkun gengisvísitölunnar frá árinu 2007. Til samanburðar, ef miðað er við að gengi krónunnar haldist óbreytt frá skráðu gengi 1. október út þetta ár yrði gengisvísitalan um 163 stig að meðaltali, eða 37% hærri en í fyrra.

Spáð er að afkoma ríkissjóðs verði í jafnvægi í ár samhliða því að dregur úr framleiðsluspennu. Afkoman mun snúast í halla á næstu árum og mun hann nema 5% af landsframleiðslu árið 2009 og 3,5% árið 2010. Ríkissjóður gegnir mikilvægu hlutverki í fjármálastjórn hins opinbera með því að hafa sveiflujafnandi áhrif á efnahagsframvinduna, en gert er ráð fyrir að dragi úr hallanum eftir því sem hagvöxtur tekur við sér og að afkoman verði jákvæð 2012.

Í framreikningum fyrir árin 2011-2013 er reiknað með hóflegum hagvexti á tímabilinu, eða um 2,4% á ári að meðaltali; að verðbólga verði nálægt verðbólgumarkmiði, að viðskiptahallinn nálgist 4,8% af landsframleiðslu og að tekjuafkoma ríkissjóðs verði í jafnvægi í lok tímabilsins

Óvissuþættir í þjóðhagsspánni varða ástand á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og sveiflur í gengi krónunnar, en einnig frekari stóriðjuframkvæmdir og endurnýjun kjarasamninga á næsta ári.