Katrín Þorvaldsdóttir, erfingi Síld og Fisk veldisins, er í sextánda sæti á auðmannalista Viðskiptablaðsins. Katrín er dóttir Þorvalds Guðmundssonar heitins sem stofnaði Síld og fisk ehf. árið 1944. Katrín erfði fyrirtækið ásamt systkinum sínum tveimur. Bæði Katrín og bróðir hennar Skúli seldu hlut sinn til Svínabúsins Brautarholts árið 2000. Um var að ræða 2/3 hlutafjár í fyrirtækinu. Geirlaug Þorvaldsdóttir, systir þeirra, hélt þá sínum hlut.

Af nafni fyrirtækisins er auðvelt að draga þá ályktun að um sjávarútvegsfyrirtæki hafi verið að ræða. Raunin er þó ekki sú. Þrátt fyrir að upphaflega hugmyndin með fyrirtækinu Síld og fiskur hafi, eins og nafnið gefur til kynna, verið sala og framleiðsla á síldar- og fiskréttum fór reksturinn fljótlega að snúast nær eingöngu um kjötvörur.

Síld og fiskur framleiðir í dag meðal annars Ali kjötvörurnar. Fyrirtækið komst í fréttir fyrr á þessu ári þegar samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu bæði Síld og fiskur og fyrirtækið Matfugl hefðu framið alvarleg samkeppnisbrot með miklu samráði við yfirmenn matvöruverslunarinnar Bónus. Var fyrirtækjunum tveimur gert að greiða 80 milljónir í sektir.

Samkvæmt auðmannalistanum á Katrín 2,6 milljarða króna í hreina eign. Katrín hefur jafnframt gjarnan komið fram á lista ríkisskattstjóra yfir hæstu skattgreiðendur landsins. Samkvæmt þeim lista greiddi hún að þessu sinni alls 46.355.347 krónur í opinber gjöld. Þar af voru 13,4 milljónir í auðlegðarskatt.

Nánar er fjallað um íslenska auðmenn í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.