Lottie Tham, dóttir Erling Persson sem stofnaði H&M-verslanaveldið, var tekjuhæsti einstaklingurinn í Svíþjóð á síðasta ári. Hún halaði inn 546 milljónum sænskra króna á árinu í laun og fjármagnstekjur. Það gera 10 milljarða íslenskra króna, rúmlega 830 milljónum íslenskra króna á mánuði. Bróðir hennar Stefan Persson, sem jafnframt stýrði H&M um tíma og er nú stjórnarformaður verslanakeðjunnar, vermir 10. sætið.

Á eftir henni koma sænsku verktakarnir Håkan Björklund og Måns Hultman, sem voru saman með svipaðar tekjur á árinu. Þær námu 461 milljón sænskra króna í tilviki Björklund en 413 milljónum sænskra króna hjá Hultman.

Það er sænska dagblaðið Expressen sem tók saman lista yfir auðugustu einstaklinga í Svíþjóð. Blaðið bendir á að Stefan Persson hafi í gegnum tíðina verið með auðugustu mönnum Svíþjóðar. Ástæðan fyrir því að hann fellur um nokkur sæti er sú, að sögn Expressen, að hann færði eignir sínar inn í eignarhaldsfélag. Við það fóru laun hans og fjármagnstekjur úr 2,7 milljörðum sænskra króna árið 2010 niður í 149 milljónir.