Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er erfitt að kortleggja aflandsmarkað með krónur núna enda sé hann margskiptur og ógagnsær. Þeir sem hafa aðstöðu til að fylgjast með Reuters Dealing-kerfinu í tölvunum sínum segja að  þar virðist um greinilega styrkingu að ræða.

Þannig sagðist einn sérfræðingur hafa fengið það staðfest frá erlendum kollegum að sú hreyfing sem sjá má fyrir EURISK í Reuters, úr 220 í 200 virðist útbreidd meðal þeirra sem höndla með krónuna erlendis.

,,Það er raunar hugsanlegt að þessi hreyfing sé eingöngu tímabundin vegna þess að koma hafi þurft tiltekinni stórri upphæð úr erlendum gjaldeyri í krónur, enda höfum við áður séð allstórar sveiflur ganga til baka á aflandsmarkaðinum. Það er því ekkert hægt að fullyrða um hvort þessi hreyfing styður á endanum við bakið á krónunni hér handan gjaldeyrishaftanna fyrr en komið er á daginn hvort um er að ræða tímabundna eða varanlega styrkingu á aflandsmarkaði," sagði sérfræðingur á gjaldeyrismarkaði við Viðskiptablaðið.

Þónokkur viðskipti hafa verið með íslenskar krónur á aflandsmakaði undanfarið og hefur veltan síðustu tvo daga að meðaltali verið um 2 milljarðar íslenskra króna á dag. Nú fæst evran á 190 íslenskar krónur, skv. viðskiptakerfi Reuters og hefur verðið ekki verið svo lágt síðan fyrir fall viðskiptabankanna fyrir réttu ári síðan segir greiningardeild Landsbankans í Hagsjá sinni.