Verðbólguþróun hér á landi hér er frábrugðin frá öðrum þróuðum hagkerfum. Í helstu samanburðarlöndum Íslands hefur hún legið í 2% verðhjöðnun og allt upp í 5% verðbólgu. Hér hefur nú farið upp í allt að 19% á milli ára.

Greiningardeild Arion banka segir í raun erfitt að finna lönd sem voru með hærri verðbólgu en Ísland á þessum árum, en samkvæmt gagnasafni World Bank voru aðeins 12 lönd með meiri verðbólgu árið 2009.

Seðlabankinn hefur ekki náð góðum árangri

Deildin fjallar um verðbólguþróun hér í kjölfar kreppunnar í Markaðpunktum sínum í dag og segir:

„Ljóst er að Ísland sker sig nokkuð úr hvað varðar þróun verðbólgu og atvinnuleysis eftir fjármálakreppuna árið 2008 og felst munurinn einna helst í gengisfalli krónunnar og háum verðbólguvæntingum. Seðlabanki Íslands hefur ekki náð eins góðum árangri og erlendir kollegar hans í að ávinna sér trúverðugleika sem lýsir sér í háum verðbólguvæntingum og þar af leiðandi þrálátri verðbólgu. Vegna þessa eru vextir Seðlabanka Íslands hærri að meðaltali en í öðrum þróuðum ríkjum en þar hafa verðbólguvæntingar trausta kjölfestu og seðlabankar hafa getað leyft sér að halda vöxtum í sögulegu lágmarki til að styðja við efnahagsbata.“

Þá segir greiningardeildin í Markaðspunktum sínum það liggja nær að bera Ísland saman við nýmarkaðshagkerfi sem búið hafa við svipaða verðbólguþróun heldur en þróuð hagkerfi með litla verðbólgu og lágar verðbólguvæntingar.