Endurskoðendur hafa efasemdir um einstök atriði í útfærslu á frumvarpi Péturs Blöndal um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög. Þær helstu eru að verði frumvarpið óbreytt að lögum þá geti það haft áhrif á þá sem ekkert illt hafi í huga en vilja kaupa sig inn í fyrirtæki. Erfitt er að þeirra mati að finna milliveg sem heftar ekki eðlileg viðskipti á milli fyrirtækja.

Fulltrúar frá Félagi löggiltra endurskoðenda, KPMG og fleirum voru gestir á fundi viðskipta- og efnahagsnefndar Alþingis í morgun þar sem farið var yfir frumvarpið.

Frumvarpið kveður á um að það varði allt að fjögurra ára fangelsi að láta fé ganga í hring með því að láta hlutafélag kaupa eða selja hluti í öðrum lögaðilum eða láta hlutafélag lána eða fá lán hjá öðrum lögaðilum í þeim tilgangi að sýna aukið eigið fé félags án þess að um raunverulega eign sé að ræða.

Frumvarpið  var lagt fyrir á síðasta þingi. Stefnt er að því að mæla aftur fyrir því á yfirstandandi þingi.

Endurskoðendur sögðust tilbúnir til að skoða málið betur og veita frumvarpinu umsögn ásamt leiðum sem þeir töldu til umbóta fyrir það.