„Það er erfiðara að fá fólk í vinnu, það er gífurleg vöntun á fólk. Það gæti verið að maður verði að fara að flytja inn fólk, því það er svo mikil eftirspurn“ sagði Tyrfingur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Guðmundar Tyrfingssonar, í samtali við Viðskiptablaðið. Hann hefur lent í vandræðum með það að finna rútubílstjóra vegna mikillar eftirspurnar eftir þeim.

Björg Dan Róbertsdóttir, forstjóri rútufyrirtækisins Trex, finnur einnig fyrir þessum áhrifum, sem fjölgun ferðamanna hefur haft. „Það er mikil eftirspurn eftir bílstjórum. Það er verkefni út af fyrir sig. Við höfum verið með góða bílstjóra, en það er erfitt því það hefur verið svo mikil fjölgun á kúnnum“ segir Björg.

Fjölgun á erlendu vinnuafli

Þetta er sérstaklega athugavert í ljósi þeirra miklu fjölgunar á erlendu vinnuafli á Íslandi. Fjölgun starfa á Íslandi er tengd ferðaþjónustu. Jafnt og þétt hefur fjölgað í hópi erlendra ríkisborgara.

Eins og kemur fram í skýrslu Vinnumálastofnunnar um atvinnuþróun á Íslandi, þá er fyrirsjáanlegt að „vöxtur í ferðaþjónustu muni halda áfram með svipuðum hraða næstu misseri og hefur verið undanfarin 2 ár og ljóst er að leita þarf eftir erlendu vinnuafli í stóran hluta þeirra starfa sem bætast við í þeirra grein.“