„Áherslur verkalýðsfélaga hvað krónutöluleiðina varðar hafa verið mjög ólíkar,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Fréttablaðið , en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði á Alþingi í gær að mikilvægt væri að koma til móts við fólk með lægri tekjur og millitekjur og það væri jafnvel best gert með krónutöluhækkunum.

Þorsteinn segir hins vegar í samtali við Fréttablaðið að engin sátt sé um krónutöluhækkanir hjá verkalýðsfélögunum. „Síðan getum við horft til opinbera umhverfisins, kröfugerða lækna og fleiri stétta sem fóru fram með mjög ríka áherslu á prósentuhækkanir.“

Hann segir að ekki sé hægt að framkvæma krónutöluhækkun ef ekki er sátt um það milli allra hópa á vinnumarkaði og bætir við að Samtök atvinnulífsins telji þá leið ekki færa.