„Sumt í ákærunum byggir á því að grafa dýpra ofan í gögnin en Kauphöllin hefur færi á,“ segir Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar. Hún gerði Fjármálaeftirlitinu viðvart um viðskipti sem áttu sér stað fyrir hrun, þótt ábendingin hafi komið eftir að bankarnir voru fallnir. Páll Harðarson segir hins vegar að þótt einhverjar viðvörunarbjöllur hafi farið í gang hafi verið erfiðara að sjá meinta umfangsmikla markaðsmisnotkun Kaupþings og Landsbankans en ætla mætti af lestri ákæranna í stóru markaðsmisnotkunarmálunum tveimur.

Hlutirnir líti öðruvísi út þegar öll gögn liggi fyrir eftir á en þegar þeir eru að gerast.

„Viðskipti geta virst margbreytileg á yfirborðinu þótt þau séu það e.t.v. ekki þegar nánar er skoðað. við erum samt með fjölmargar bjöllur sem hringja við hin ýmsu tilfelli og sendum í hverjum mánuði nokkur mál til frekari skoðunar hjá FME. Mál sem í fyrstu sýn virðast grunsamleg geta svo við nánari athugun reynst eðlileg og öfugt,“ segir hann og bendir á að allt verklag og eftirlit hjá Kauphöllinni hafi verið skoðað í kjölfar hrunsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.