Katrín Halldóra Sigurðardóttir, sem leikur Elly Vilhjálms í sýningu Borgarleikhússins er alin upp í Mosfellsbæ til níu ára aldurs en flutti þá til Neskaupstaðar þegar faðir hennar var skipaður þar prestur.

„Ég er algjör sveitatútta í mér núna, en á sínum tíma var mikið sjokk að flytja austur. Fyrstu tvo mánuðina grenjaði ég út í eitt. En eftir þann tíma var ég byrjuð að aðlagast og eignast vini og er í dag hundrað prósent þakklát fyrir að hafa alist upp í Neskaupstað. Ég á afskaplega góðar minningar frá uppvextinum þar og þykir vænt um plássið.”

Í Neskaupstað fékk hún hvatningu frá víðsýnum kennara til að rækta með sér sköpunargáfuna og fá heilbrigða útrás fyrir sýniþörf sem flestum sem hana þekktu var augljós, og birtist m.a. í leikþáttum sem hún setti upp í veislum og afmælum. Hún skrifaði sömuleiðis mikið sem barn, ljóð og leikrit, og vann það m.a. sér til frægðar að vinna verðlaun fyrir ljóð.

„Mér var flogið suður og fór í verðlaunaafhendinguna á Bessastöðum. Fyrir litla stelpu að austan var það mikil upphefð að fá að taka í höndina á forsetanum,“ segir hún hlæjandi.

Mikil næring í skrifunum

Katrín Halldóra lætur þó ekki leikinn nægja einan og sér heldur er hún um þessar mundir að feta sín fyrstu fótspor við ritun gamanefnis á opinberum vettvangi, en hún er einn af höfundum Áramótaskaups RÚV í ár.

„Ég hef starfað mikið með spunaleikhópnum Improv Ísland og búið til marga grínsketsa sem hafa þó allir lent ofan í skúffu. Arnór Pálmi Arnarson, sem leikstýrir Skaupinu í ár, hafði hins vegar einhverja trú á að ég hefði hæfileika á þessu sviði og bauð mér að koma inn í höfundateymið, sem ég auðvitað þáði með þökkum.

Þegar maður er í svona stórri sýningu snýst lífið meira og minna bara um hana, sýningin á mann allan og erfitt að taka að sér önnur verkefni, en maður getur nært sig á öðrum sviðum og skrifin gera það svo sannarlega. Þetta er auðvitað talsvert stökk frá leiklistinni, að skrifa og vinna með eigin texta, og það er ógnargaman að vera viðstödd tökur og sjá textana lifna við.

Einhvern skets sem maður skrifaði í hláturskasti inni í herbergi á RÚV vera búinn að ganga í gegnum framleiðsluferlið og vera loks kominn í umgjörð og með leikara. Það er rosalega skemmtilegt og lærdómsríkt að skrifa og klárlega eitthvað sem ég vil gera meira af, ekki síst fyrir sjónvarp.“

Hún segir að höfundateymið sem skrifar Skaupið í ár hafi unnið afskaplega vel saman. „Við höfum aldrei starfað saman áður og erum mjög ólíkir persónuleikar, en samvinnan hefur verið hrikalega skemmtileg frá fyrsta degi. Skaupið í fyrra var vitsmunalegt í þeim skilningi að höfundar þess voru aðallega uppistandarar með bakgrunn úr MR og MH, en núna eru þetta allt meira eða minna leikarar þannig að ég held að litróf Skaupsins í ár verði allt annað en í fyrra.“

Aðstandendur Skaupsins héldu krísufund eftir að hið svokallaða Klaustursmál kom upp. „Við veltum því fyrir okkur hvort yfirhöfuð væri hægt að taka á þessu ömurlega máli, hvort það væri hægt að gera grin að þessu, en niðurstaðan var sú að fleygja út einu atriði sem við höfðum tekið upp áður og búa til nýtt um þetta mál,” segir Katrín Halldóra.

Í frjálsu falli í spuna

Hún segir leikspunann vera hættulegt og krefjandi form, ekki síst vegna þess að enginn veit hvað gerist næst og allt getur gerst. „Maður er einhvern veginn í frjálsu falli í spuna,“ segir Katrín Halldóra. „Hann er í raun frábær grunnur fyrir allt sem ég geri og nýtist mér líka í dramanu, uppbyggingu texta, hvernig maður nálgast og sér hlutina og svo framvegis. Sama má segja um grínið.

Það er svo skemmtilegt í leiklistinni að fá að gleyma sér, skilja allt eftir fyrir utan sviðið og miðla einhverju til að gleðja fólk eða græta. Það er t.d. gríðargaman á Improv Ísland að fá fólk til að losa um hömlurnar og hlæja eitt kvöld og maður fær eitthvað út úr því sem ég get ekki útskýrt. Raunar var búið að segja við mig löngu fyrr að grínið myndi hjálpa mér í dramanu en ég hélt að það væri klisja, alveg þangað til að ég upplifði það sjálf.“

Nánar má lesa um málið í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .