Nú, þegar búið er að heimila flæði fjármagns á milli landa, verður ekki auðvelt að fyrir stjórnvöld að setja á eignaskatt. Þetta segir Heiðar Guðjónsson fjárfestir í nýjum umræðuþætti Íslandsbanka, Yfirlitinu , en í þetta sinn er fjallað um fjármál hins opinbera.

„Segjum sem svo að farið verði að auka skattheimtu, til dæmis á ákveðna starfsemi, fyrirtækjaskattar og ef auðlegðarskattur kæmi til þá myndi krónan strax gefa eftir og það myndi bitna á öllum strax. Tekjurnar af þessu, eins og hefur sýnt sig, eru ekki sérstaklega miklar og maður veltir fyrir sér hvort það væri betra heima setið en af stað farið," segir Heiðar. „Ef við skoðum tekjuhæstu tíundina í dag og eignirnar sem þeir eiga er það ekki nema um það bil eitt einbýlishús eða um 100 milljónir. Það er ekki eins og þetta sé heill massi af stóreignarfólki sem geti staðið  undir meiriháttar skattheimtu."

Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs, tók í sama streng og benti á þau vandkvæði sem hefðu fylgt eignaskatti, sem settur var á í Frakklandi. Hún benti jafnframt á aðra breiðari skattstofna en eignaskatt.

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, sagði flesta Íslendinga vera með sínar eignir í húsnæði. „Við höfum upplifað gríðarlegar hækkanir á húsnæði á undanförnum árum. Flestir Íslendingar sem ekki eru fjármagnseigendur eiga sína eign í húsnæði. Þá þarf að draga línu hversu mikið þú mátt eiga til að sleppa við auðlegðarskatt og það verður alltaf umdeilt. Við þekkjum umræðuna síðast þegar þessi skattur var lagður á þegar fullt af eldra fólki sem bjó í skuldlausum húsum var að nurla saman fyrir skattinum því það var ekki með tekjur til að standa undir honum."