Nýlega kom út hjá Bókafélaginu Uglu bókin „Engan þarf að öfunda“ eftir Barböru Demick en þar segir frá hörmulegu ástandi í N-Kóreu. Bókin er í flokki áhugaverðra bóka um alþjóðamál sem komið hafa út hjá forlaginu á undanförnum árum og aðspurður segist Jakob F. Ásgeirsson útgefandi vera veikur fyrir bókum af þessu tagi. „Því miður hef ég ekki haft bolmagn til að gefa út nema örfáar. Ísland er fámennt land og erfitt að láta slíkar bækur standa undir sér. Það er heldur ekki hlaupið að því að fá styrki til útgáfu fræðibóka. Ég fékk styrk úr Bókmenntasjóði til að gefa út Engan þarf að öfunda, en almennt hafa fagurbókmenntirnar forgang þar á bæ. Ég gaf t.d. út Peningarnir sigra heiminn eftir Niall Ferguson og Jesús frá Nasaret eftir Benedikt páfa XVI án nokkurra styrkja og það var talsvert tap á báðum bókum,“ segir Jakob og bætir því við að í þessu efni sem mörgum öðrum setji mannfæðin okkur skorður. „Á hinum Norðurlöndunum er mikið þýtt af fræðibókum en þar eru bæði opinberir styrkir mun ríflegri en hér og auk þess nægilegur mannfjöldi til að svona bækur geri í blóðið sitt,“ segir hann.

Ísland er lítill markaður, sumir segja jafnvel örmarkaður, og segir Jakob það nær ógerlegt að ná fram stærðarhagkvæmni í bókaútgáfu hér á landi. „Flestar bækur hér á landi eru gefnar út í því sem annars staðar myndu kallast lágmarksupplög, þ.e. innan við 1.000–1.500 eintök. Yfirleitt þarf bók að seljast í 800–1.200 eintökum til að standa undir öllum kostnaði við útgáfu og auglýsingar. Ætli það sé nokkuð meira en fjórðungur útgefinna bóka á Íslandi sem selst umfram það? Af því leiðir auðvitað að þetta er óttalegur smáaurabissness.“

Jakob hefur starfrækt Bókafélagið Uglu í átta ár og á þeim tíma gefið út um hundrað bækur en auk þess gefur fyrirtækið út tímaritið Þjóðmál sem kemur út fjórum sinnum á ári. Jakob ritstýrir Þjóðmálum og hefur gert frá stofnun þess fyrir sjö árum.

Viðtal við Jakob F. Ásgeirsson er að finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.