Skattrannsóknarstjóri segir að erfitt sé að nálgast upplýsingar um skattaskjól víða um heim. Málþing um skattskjól verður haldið í Norræna húsinu í dag.

Norðurlöndin hafa á síðustu árum, í sameiningu, gert samninga um upplýsingaskipti við rúmlega 40 svonefnd skattaskjól. Á fundinum í dag verður leitað svara við hver árangurinn hafi verið af slíkum samningum. Ein þeirra sem flytur erindi á fundinum er Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri.

Bryndís segir í samtali við fréttastofu RÚV að erfitt sé að fá upplýsingar um skattaskjól í heiminum. Ýmsar banka- og fjárhagsupplýsingar liggi ekki fyrir. Í því samhengi nefnir hún sérstaklega Bresku Jómfrúareyjarnar. Bryndís segir að sumstaðar séu þessar upplýsingar einfaldlega ekki til staðar. Hún  segir þetta samstarf vera lið í alþjóðlegri baráttu gegn skattaskjólum.

Ráðstefnan hefst í Norræna húsinu klukkan níu og stendur til hádegis.