Efnahags- og viðskiptaráðherra birti í síðasta mánuði skýrslu um framtíðarskipan fjármálakerfisins. Þar eru ræddar hugmyndir um aðskilnað viðskipta- og fjárfestingarbanka en sérfræðingahópur skilar tillögum í haust. Í skýrslunni segir ljóst að erfitt sé að setja einföld lagaákvæði um aðskilnað banka.

Í skýrslu ráðherra kemur fram að mikilvægt sé að fylgjast með framvindu mála á alþjóðavettvangi áður en ráðist verði í róttækar breytingar hér á landi. „Sem stendur eru hættumerki um óheppileg tengsl þessara tveggja starfsþátta ekki sérstakt áhyggjuefni í hinu nýendurreista fjármálakerfi hér á landi. Í ljósi dýrkeyptrar reynslu er ástæða til að vera vel á verði og útiloka ekki aðgreiningu eða aðskilnað þessara starfsþátta sem framtíðar fyrirkomulag, ekki síst ef þróunin stefnir í þá átt á alþjóðavísu.“

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er fjallað um mismunandi leiðir sem farnar hafa verið í Evrópu og Bandaríkjunum og þá leið sem yfirvöld hér á landi kunni að velja. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.