Tveggja manna fjármálafyrirtæki á að öllu jöfnu erfitt með að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til banka, segir Fjármálaeftirlitið (FME) í skriflegu svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.Greint var frá því í síðustu viku að starfsmenn Sögu Fjárfestingarbanka verða tveir talsins eftir breytingar sem kynntar voru í síðustu viku. FME gat ekki svarað því hvort bankaleyfi Sögu verði afturkallað. „Fjármálaeftirlitið getur ekki svarað spurningum um afturköllun starfsleyfa einstakra banka að öðru leyti en því að afturköllun starfsleyfis er auglýst í Lögbirtingablaðinu,“ segir í svarinu. Það sé hinsvegar hlutverk FME að hafa eftirlit með og skoða hvort fjármálafyrirtæki uppfylli skyldur sínar.

Tveir eftir

Í síðustu viku var tilkynnt um kaup MP banka á fyrirtækjaráðgjöf Sögu. Samhliða kaupunum flytjast sex starfsmenn Sögu til MP banka. Í júní síðastliðnum voru starfsmenn Sögu sextán. Að Hersi Sigurgeirssyni og einum öðrum starfsmanni undanskildum fengu starfsmenn, sem ekki flytjast til MP, uppsagnarbréf í síðustu viku. Þeir munu starfa út uppsagnarfrest, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins og greint var frá í síðasta blaði.

Fækkun starfsmanna dregur verulega úr starfsemi Sögu. Í kjölfar breytinganna bárust tilkynningar til Kauphallar að Saga sé hætt með viðskiptavakt á bréfum Marels og Icelandair Group. Einn viðmælenda innan bankans sagði í samtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku að starfsemin sé dregin saman meðan beðið er úrlausna ýmissa mála er snúa að bankanum. Heimildir Viðskiptablaðsins herma enn frekar að vinna starfsmannanna tveggja verði einkum við eignasafn Sögu og að viðhalda tekjuskattseign innan bankans.