Nú eru tæp tvö ár liðin frá því að vörugjöld voru felld niður, var það ekki mikil búbót fyrir ykkur og viðskiptavini?

„Forsvarsmenn verslana höfðu barist fyrir því í áratug að ná þessum gjöldum af vegna þess að þau voru voðalega skrítin. Það lagðist 20 til 25% gjald á „lúxusvörur“ á borð við sjónvörp eða heimilistæki sem voru með hita-elementi í, það var engin lógík á bakvið þetta. Þegar það var síðan komið í umræðuna að vörugjöld myndu fara af um næstu áramót var náttúrulega borðleggjandi að það yrði mjög erfitt að selja dýr og fín sjónvörp fyrir jólin sem síðan myndu lækka í verði um áramótin. Við byrjuðum því strax í september að lækka verðin í áföngum, sem leiddi síð­ an til þess að ASÍ var að gera verðkannanir og sakaði okkur raftækjasala um að hafa ekki skilað afnámi vörugjalda í verð­ in okkar, en það var nú hægt að sýna fram á að það hafði verið gert.

Samkvæmt Hagstofunni sýna mælingar að raftækjaverð hafði lækkað um 17% síðastliðið vor frá því áður en vörugjöldin voru afnumin. Framlegð okkar hækkaði ekki um eitt prósent og verðið fór niður, það var búið að lækka svona 70% af vörunum í desember og þá bara tókum við það á okkur, það var minni framlegð af þeim vörum sem við vorum búin að kaupa inn. Við gátum aðeins brugðist við með því að flytja inn vörur á frílager sem var hjá Eimskip, við leigðum rými hjá þeim og þá var varan ekki tolluð þó hún væri komin til landsins í desember, því það var ekkert hægt að fá endurgreidd vörugjöld eftir að varan var komin inn á lager hjá okkur.

Við leystum reglulega út af frílagernum til að setja beint í búðina þar sem þetta seldist fljótt, en það sem var til á lager okkar þegar tollað var um áramót var línulega lækkað um það sem nam vörugjöldum og virðisaukaskattslækkun. En afnámi vörugjalda var 100% skilað hjá okkur og að ég held flestum okkar keppinautum. Það er voðalega erfitt alltaf að liggja undir þessum grun að við séum gráðugir og stórþjófóttir og ekki treystandi fyrir neinu.“

Á gagnrýni forsvarsmanna verslana á verðlagskannanir ASÍ rétt á sér?

„Við fengum ASÍ til að koma hingað á fund til okkar til að útskýra hvernig við gerðum hlutina og spurðum hvort þeir vildu skoða nákvæmlega hvað við gerð­ um. Þeir höfðu ekki áhuga á því og komu síðan með almenna yfirlýsingu, sem var það sem við óttuðumst, um að almennt væri ekki búið að skila vörugjöldunum að fullu til neytenda. Það er ekkert traust þarna á milli og við segjum að þetta sé bara ófaglega unnið og afskaplega erfitt að vinna með þeim.“

Er rekstrarumhverfið gott fyrir verslanir á Íslandi í dag?

„Það er gott þegar veltan er heilbrigð og kostnaðaraðhald haft. Það kom svolítið högg á alla sem eru í þessum rekstri þegar miklar launahækkanir urðu og það sér kannski ekki fyrir endann á því ennþá. En á móti höfum við haldið þétt að okkur öðrum kostnaðarliðum og blessunarlega hefur veltan aukist. Það var endurskoð­ aður hjá okkur starfsmannafjöldinn alls staðar en við gátum lítið breytt honum og höfum tekið það út í meiri veltu á sama mannskap.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .