*

fimmtudagur, 3. desember 2020
Innlent 13. október 2018 11:05

Erfitt ár fyrir rútufyrirtækin

Fimm stærstu rútufyrirtæki landsins töpuðu samtals 319 milljónum króna á árinu 2017.

Ástgeir Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Fimm stærstu rútufyrirtæki landsins þegar litið er á rekstrartekjur: Kynnisferðir, Allrahanda GL (Gray Line), Snæland Grímsson, Hópbílar og Guðmundur Jónasson (GJ Travel), töpuðu samtals 319 milljónum króna á árinu 2017 samkvæmt ársreikningum félaganna samanborið við 339 milljóna króna hagnað á árinu 2016. Versnaði afkoma félaganna því um 658 milljónir króna á milli ára. Tvö fyrirtækjanna, Snæland Grímsson og Hópbílar, skiluðu hagnaði á síðasta ári á meðan Kynnisferðir, Allrahanda GL og Guðmundur Jónasson skiluðu tapi.

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá skiluðu Kynnisferðir 314 milljóna króna tapi á síðasta ári samanborið við 144 milljóna króna hagnað árið á undan. Allrahanda GL tapaði 195  milljónum króna og jókst tap félagsins frá fyrra ári um 141 milljón króna. Tap Guðmundar Jónassonar nam 143 milljónum og jókst um 78 milljónir milli ára. Þrátt fyrir að Hópbílar hafi skilað 196 milljóna króna hagnaði á síðasta ári dróst afkoma fyrirtækisins saman um 31 milljón milli ára. Því versnaði afkoma rútufyrirtækjanna fjögurra um 708 milljónir króna á milli ára. Aðra sögu er hins vegar að segja af Snæland Grímsson en fyrirtækið var það eina sem bætti afkomu sína milli ára. Félagið hagnaðist um 137 milljónir króna á síðasta ári  og jókst hagnaður félagsins um 57% milli ára úr 87 milljónum. Þess ber þó að geta að fyrirtækin eru ekki fullkomlega samanburðarhæf þar sem misjafnt er hver stór hluti af veltu fyrirtækjanna felst í rekstri ferðaskrifstofu.

Kynnisferðir langstærstir

Þegar rekstrartekjur fyrirtækjanna fimm eru skoðaðar kemur í ljós að Kynnisferðir eru langstærsta rútufyrirtæki landsins. Tekjur félagsins námu 8,1 milljarði króna á síðasta ári og jukust um 14% frá 2016. Allrahanda GL er næststærst, velta félagsins nam rúmlega 4 milljörðum og jókst um 80 milljónir milli ára. Í þriðja sæti kemur Snæland Grímsson með tekjur upp á 2.357 milljónir króna og jukust þær um 12,5% milli ára. Tekjur Hópbíla jukust um 13,2% milli ára og námu 2.218 milljónum og þá námu tekjur Guðmundar Jónassonar 2,2 milljörðum króna á síðasta ári og jukust um 9,1% frá 2016. Samtals námu tekjur fyrirtækjanna fimm 18,9 milljörðum króna á síðasta ári og jukust um 10,4% milli ára.

Kostnaður vex hraðar en tekjur

Þrátt fyrir að tekjur fyrirtækjanna fimm hafi aukist á síðasta ári þá jókst rekstarkostnaður hraðar en tekjur hjá þremur þeirra. Rekstarkostnaður Kynnisferða nam tæpum 7 milljörðum og jókst um 17,2%, hjá Allrahanda GL nam hann 3.945 milljónum og jókst um 1,6% milli ára. Hjá Snæland Grímsson jókst hann hins vegar um 5,2% milli ára og nam 2.074 milljónum. Rekstrarkostnaður Hópbíla jókst um 18,9% og var 1.965 milljónir og hjá Guðmundi Jónassyni var hann 2.327 milljónir og jókst um 15% milli ára. Rekstrarkostnaður fyrirtækjanna fimm nam því 17,3 milljörðum króna á síðasta ári og jókst um 11,7% frá 2016. Rekstarkostnaður óx því 1,3 prósentustigum hraðar en tekjur hjá fyrirtækjunum fimm.

Heildareignir félaganna fimm námu tæplega 15,9 milljörðum króna í lok árs og jukust um 1,4 milljarða milli ára á meðan skuldir þeirra námu samtals 12,6 milljörðum í lok árs og jukust um rétt rúman milljarð. Eiginfjárhlutfall þeirra var að meðaltali 26% en þó ber að taka fram að eiginfjárhlutfall fyrirtækjanna fimm er mjög ólíkt.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.