Eins og kom fram fyrr í dag þá keypti Avion Group franska leiguflugfélagið Star Airlines. Seljandi Star Airlines er félagið Angel Gate Aviation Limited sem er í eigu fransk-egypska auðkýfingsins Raymond Lakah. Hann eignaðist 44,27% hlut í Star Airlines í byrjun júní á síðasta ári en hann hóf að kaupa í félaginu í mars 2005. Eftir því sem komist verður næst greiddi hann á bilinu 42 til 62 milljónir evra fyrir félagið eða 3,1 til 4,6 milljarða króna. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er það verulega hærra en það verð sem Avion Group kaupir það á.

Þegar kaupin gengu í gegn átti Angel Gate Aviation 91,7% hlut í Star Airlines. Afgangurinn var í eigu einstaklinga sem komu að rekstrinum. Afkoma félagisins versnaði mikið í fyrra en þá var EBITDA framlegð þess ekki nema 1,9 milljónir evra en hafði verið 8,8 milljónir evra árið á undan. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafði eignarhald Lakah ekki jákvæð áhrif á reksturinn og má leyfa sér að ætla að nokkur tækifæri felist í breyttu eignarhaldi.

Lakah er þekktur fjárfestir í Frakklandi og nokkuð umdeildur og sama á við um bróður hans. Meðal eigna Lakah er franska dagblaðið France Soir sem komst í fréttirnar fyrir skömmu þegar það birti endurbirti allar 12 myndir Jótlandspóstsins af Múhameð spámanni. Lakah fordæmdi myndbirtinguna og rak Jacques Lefranc ritstjóra blaðsins í kjölfarið. Hefur sá brottrekstur vakið mikið umtal og margir sniðgengið blaðið í kjölfar þess.

Lakah á Angel Gate eignarhaldsfélagið og einnig flugfélagið Air Horizons.