Núgildandi kjarasamningar gera ráð fyrir launahækkun sem kemur til framkvæmdar um næstu mánaðamót.

Í þeim tilfellum, þar sem hefðbundinn launataxti hækkar ekki um ákveðna krónutölu, er í flestum tilvikum gert ráð fyrir 3,25% launahækkun. Það þýðir að laun launamanns með 250 þúsund krónur á mánuði munu hækka um rúmar átta þúsund krónur. Útborguð laun munu hækka um 4.500 krónur á mánuði eða 54 þúsund krónur yfir árið — sem viðkomandi yrði þá af ef samningum verður sagt upp.

Einstaklingur með 350 þúsund krónur á mánuði myndi verða af um 76 þúsund krónum (í útborguð laun) á árinu og launamaður með 450 þúsund króna mánaðarlaun yrði af um 97 þúsund krónum. Launamaður með 550 þúsund krónur í mánaðarlaun yrði af um 119 þúsund krónum á árinu.

Þetta eru fulltrúar launþegasamtaka meðvitaðir um og eru því í nokkurs konar pattstöðu gagnvart atvinnurekendum og um leið félagsmönnum sínum.

Nánar er fjallað um stöðuna á vinnumarkaði og viðræður milli aðila vinnumarkaðarins í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.