Erfitt gæti reynst að mynda næstu ríkisstjórn eftir kosningar og ekki útilokað að nokkrar tilraunir þurfi til, að mati Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings. Hann heldur nú erindi á vegum Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála og Stjórnmálafræðideildar Háskóla Íslands um ástæðu þess að stjórnarmyndunarviðræðurnar munu ganga illa. Guðni telur líklegt að tveggja flokka stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks taki við af vinstristjórninni.

Guðni sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar í hádegi að algengt hafi verið að langan tíma hafi tekið að mynda ríkisstjórnir hér á landi á árum áður, þ.e. ef undan eru skilin síðastliðin 20 ár. Teikn séu á lofti að sagan endurtaki sig nú. Hann nefndi sem dæmi að óvíst sé hvort mynduð verði tveggja flokka stjórn eða þriggja. Ekki síst liggi ekki beint við miðað  við fylgi flokka í skoðanakönnunum hvort Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, eða Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, leiði þær. Miðað við fylgi Framsóknar upp á síðkastið bjóst hann við að Sigmundur fái hlutverkið.