Samkvæmt Retail Week var fyrsti ársfjórðungur ársins 2008 smásölum í Bretlandi mjög erfiður og því hefur fjöldi verslana skilað neikvæðu uppgjöri fyrir tímabilið.

23% smásala í Bretlandi segja að sala hafi dregist saman miðað við 10% samdrátt á sama tíma í fyrra. Samdráttur í smásölu á sama tímabili hefur ekki verið meiri í Bretlandi frá því á fyrsta ársfjórðungi 2006 en þá nam samdrátturinn 24%.

Tæp 40% þeirra smásala sem sendu frá sér jákvætt uppgjör fyrir tímabilið segja að samdráttur hafi orðið og hagnaðurinn því minni en á sama tíma í fyrra. Auk þess sendu átta smásölufyrirtæki, sem selja tískuvörur, raftæki eða húsgögn, frá sér afkomuviðvörun.

Meðal fyrirtækja sem sendu frá sér viðvörun voru DSGi, Land of Leather og Moss Bros.

Skjálfti við verslunargötur

Að sögn Retail Week er farið að gæta nokkurs skjálfta hjá eigendum verslana við helstu verslunargötur í Bretlandi og margir þeirra eru farnir að óttast um hag sinn. Neytendur eru greinilega farnir að gæta buddunnar betur og fátt sem bendir til að þeir muni losa tökin á henni í nánustu framtíð.

Aukin sala í matvöruverslunum Þrátt fyrir samdrátt í sölu við margar stórar verslunargötur jókst sala í matvöruverslunum í Bretlandi á fyrsta ársfjórðungi ársins.

Sala á mat- og drykkjarvörum jókst umtalsvert, auk þess sem sala á fatnaði, afþreyingu og raftækjum í matvöruverslunum hefur aukist mikið það sem af er árinu.