Jólamánuðurinn er jafnan mikilvægur mánuður fyrir afkomu smásala. Samkvæmt nýlegum breskum markaðsrannsóknum er jólasalan í Bretlandi slök enn sem komið er og er jafnvel gengið svo langt að tala um að hugsanlega verði þetta lélegasta jólasala í 25 ár. Þetta kemur fram í Hálffimm fréttum Kaupþings banka.

Þar er einnig bent á að  komið hefur fram í könnunum að smásalan í nóvember hafi ekki verið lægri í átta mánuði. Ástæður fyrir þessu geta verið nokkrar. Veðrið í Bretlandi hefur til að mynda verið óhagstætt vöruúrvali þeirra smásala sem selja fatnað. Gott veður gerir það að verkum að neytendur kaupa ekki vetrarfatnað heldur halda sig við haustfatnaðinn. Að auki hafa ekki verið sterkir tískustraumar undanfarið eins og stundum áður. Seðlabanki Englands hefur hækkað vexti tvisvar á árinu, í ágúst og nóvember, sem gæti skýrt lægri einkaneyslu. Til að mæta þessu er líklegt að smásalar bjóði afslætti á vörur sínar fyrr en áður til að losna við birgðir. Leiða má að því líkum að afkoma fyrirtækja, sem treysta mjög á breskan markað, á fjórða ársfjórðungi gæti orðið lægri en margir hafa gert sér í hugarlund segir í Hálffimm fréttum.


Þar er einnig bent á að Woolworths sendi frá sér afkomuviðvörun í vikunni og var því fyrsti stóri smásalinn sem tilkynnir um útlit fyrir lakari sölu á þessum mikilvæga tíma. Félagið tilkynnti að sala verslana hefði lækkað um 6,5% á síðustu 18 vikum. Þó að síðustu vikur jólanna, sem oft eru lykilvikurnar, hafa ekki enn gengið í garð er rétt að hafa varann á segir í tilkynningu Woolworths.