Gítarhetjan Eric Clapton selur úrið sitt hjá uppboðshúsi Christie's í Genf í Sviss í næsta mánuði. Hann vonast til að fá fyrir gripinn á bilinu 2,7 til 4,2 milljónir dala, allt upp undir hálfan milljarð króna.

Úrið er engin smásmíði heldur sjaldgæft eintak undir merkjum svissneska úrasmiðsins Patek Philippe. Það er af gerðinni Patek Philippe 2499 og voru aðeins tvö slík úr búin til. Um 310 önnur lúxusúr verða boðin til sölu á uppboðinu.

Þetta er ekki fyrsta skiptið sem Clapton losar um eignir en hann seldi fyrir helgi málverk eftir þýska listmálarann Garhard Richter hjá uppboðshúsi Sotheby's í London fyrir 21,3 milljónir punda, jafnvirði rúmra fjögurra milljarða króna. Það er tíu sinnum meira en Clapton greiddi fyrir verkið árið 2001. Þetta er jafnframt hæsta verð sem fengist hefur fyrir verk Richters.

Eins og Daily Mail greinir frá hefur Eric Clapton auga fyrir listmunum en hann stundaði nám í listasögu til skamms tíma áður en hann sló í gegn sem tónlistarmaður. Auð sinn hefur Clapton nýtt til að festa kaup á listmunum sem gleðja bæði augu hans og veski á sama tíma og aðdáendur hans njóta tónlistar hans.

Hér má sjá Eric Clapton taka lag sitt Layla.