Sænska félagið Ericsson AB sem er stærsti framleiðandi á þráðlausum fjarskiptakerfum í heiminum birti uppgjör sitt í morgun fyrir fjórða ársfjórðung og var afkoma félagsins töluvert undir væntingum markaðarins. Í Vegvísi Landsbankans segir að hagnaður Ericsson fyrir skatta á fjórða ársfjórðungi nam 7,6 mö. SEK sem er um 38% lækkun frá sama tíma 2006 en þá var hagnaður félagsins um 12,2 ma.SEK. Hagnaður Ericsson árið 2007 í heild fyrir skatta nam 30,7 mö.SEK. Gengi hlutabréfa í Ericsson lækkaði um 46% í sænsku kauphöllinni á síðasta ársfjórðungi ársins 2007 í kjölfar þess að Ericsson lækkaði sölumarkmið sitt tvisvar á fjórða ársfjórðungnum. Uppsagnir framundan Ericsson lækkaði áætlanir sínar fyrir árið 2008 samhliða uppgjörinu og telur félagið að sala á nýjum farsímakerfum muni standa í stað á árinu. Hagræðingar standa einnig fyrir dyrum hjá Ericsson en áætlunin er að spara um 4 ma.SEK á ári sem félagið hyggst gera meðal annars með því að segja upp allt að 1.000 starfsmönnum í Svíþjóð. Eykst samkeppni í þráðlausum fjarskiptakerfum? Motarola Inc hefur gefið það út að hugsanlega muni félagið selja farsímahluta sinn og einbeita sér að öðrum sviðum. Motorola hefur tapað þó nokkurri markaðshlutdeild á farsímamarkaðinum þá sérstaklega til bæði Samsung og hins nýja iPhone frá Apple. Ef af þessu verður mun samkeppni á þráðlausum fjarskiptamarkaði líklegast aukast þar sem Ericsson eru stærstir í heimi. Á árinu 2007 var mesta söluaukningin hjá Motorola á þessu sviði eða um 35% samkvæmt því sem segir í Vegvísinum.