Í Vegvísi Landsbankans segir að sænska fjarskiptafyrirtækið Ericsson standi afar höllum fæti um þessar mundir. Í gær lækkaði verð bréfa í fyrirtækinu um meira en 10% og hefur frá áramótum lækkað um rúm 40%. Vegna þessa telst Ericsson ekki lengur meðal 10 stærstu skráðra félaga á Norðurlöndunum og líkur á að svo verði um nokkurt skeið. Félagið var löngum eitt af þremur stærstu félögum Norðurlanda. Afkomuviðvörun um miðjan október varð til þess að gengi hlutabréfa í Ericsson féll nánast lóðrétt um 23%.


Erfiður fjárfestadagur í New York
Á kynningu félagsins með fjárfestum í New York í gær kom fram að til skamms tíma líti rekstur félagsins ekki mjög vel út en yrði kominn í samt lag á síðari helmingi næsta árs. Eftirspurn eftir fjarskiptakerfum félagsins í Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu hefur verið lítil og þá kom fram að veiking á dollar hefði neikvæð áhrif á reksturinn. Því gæti uppgjör fjórða ársfjórðungs orðið verra en áætlanir í október gerðu ráð fyrir. Í framhaldinu hafa flestir hlutabréfagreinendur lækkað verðmöt, segir í Vegvísirinn.

Hitnar undir stjórnendum
Í kjölfar lækkunarinnar í gær fór af stað orðrómur um að búið væri að reka forstjóra félagsins, Carl-Henric Svansberg, en hann fengi að sitja áfram við stjórnvölin þar til nýr stjórnandi yrði fundinn. Stjórnarformaður Ericsson, Michael Treschow, hefur hins vegar harðneitað að svo sé. Skömmu eftir birtingu uppgjörs þriðja ársfjórðungs sagði fjármálastjóri félagsins af sér .
Slæmar fréttir um fyrirtækið héldu áfram að berast þegar sænska ríkisútvarpið sagði frá því í dag hvernig umboðsmenn þess eiga að hafa mútað valdhöfum í Oman til að ná fram samningum, samkvæmt því sem segir á Vegvísi Landsbankans.


Verð á bréfum Ericsson lækkaði um 8,5% í viðskiptum dagsins.