Ericson rekur forstjóra fyrirtækisins Hans Vestberg, eftir 28 ára starf hjá sænska símafyrirtækinu.

Kemur þetta í kjölfar þess að fjárfestar hafa orðið fyrir vonbrigði með árangur fyrirtækisins sem og rannsóknar á spillingarmálum sem fyrirtækið lenti í.

Minnkandi sala og hagnaður

Sala fyrirtækisins sem og hagnaður þess hefur farið minnkandi á undanförnum ársfjórðungsuppgjörum fyrirtækisins með harðnandi samkeppni frá Huawei fyrirtækinu í Kína og Nokia í Finnlandi. Vestberg veðjaði á aukinn hagnað frá fjölmiðlun og þjónustu sem ekki hefur enn orðið úr.

Í kjölfar ákvörðunarinnar hækkuðu hlutir í fyrirtækinu um 5,5% strax á fyrstu mínutum viðskipta við opnun markaða í Stokkhólmi í morgun, þó hækkunin standi nú í 2,44%.

25 þúsund störf tapast í niðurskurði

Í stað Vestberg mun aðalfjármálastjóri fyrirtækisins, Jan Frykhammer taka við forstjórastarfinu tímabundið þangað til annar finnst, en Frykhammer hefur lýst því yfir að hann vilji ekki taka við starfinu til langframa.

Sölutekjur fyrirtækisins lækkuðu til að mynda um 11% á síðasta ársfjórðungi, og hagnaður af starfsseinni lækkuðu um fimmtung. Fyrr í mánuðinum tilkynnti forstjórinn að sparnaðaraðgerðir fyrirtækisins sem nema eiga 1,05 milljörðum Bandaríkjadala verða auknar um helming. Sænskir fjölmiðlar telja það þýða að um 25.000 störf muni tapast, en í dag eru um 116,500 starfsmenn hjá fyrirtækinu.

Þess utan skaðaði það forstjórann að bandarísk stjórnvöld settu af stað spillingarrannsókn á fyrirtækinu sem og fréttaflutnings í sænskum fjölmiðlum um notkun hans á einkaflugvélum og launastefnu fyrirtækisins.

Í yfirlýsingu segist forstjórinn hafa átt 28 frábær ár hjá fyrirtækinu, þar af síðustu 7 árin sem forstjói.