Erla Ósk Pétursdóttir hefur hafið störf sem framkvæmdastjóri hjá Marine Collagen. Erla Ósk hefur undanfarin sex ár starfað hjá útgerðarfélaginu Vísi í Grindavík, nú síðast sem mannauðsstjóri en þar áður var hún framkvæmdastjóri Codland. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Hún er með BA gráðu í hagfræði og tölvunarfræði frá Macalester College í Minnesota-ríki í Bandaríkjunum og stundar MBA nám við Háskólann í Reykjavík.

Erla Ósk er uppalinn Grindvíkingur sem hefur áhuga á að rækta líkama og sál. Hún stundar crossfit og jóga ásamt því að syngja með kvennakórnum Grindavíkurdætrum.  Í fyrra bættist svo golfið við en það er sameiginlegt áhugamál allrar fjölskyldunnar. Erla Ósk er gift Andrew Wissler fjármálastjóra og eiga þau þrjá drengi.

Marine Collagen er framleiðslufyrirtæki í eigu Brims, Samherja, Vísis og Þorbjarnar. Félagið, sem er í Grindavík, framleiðir gelatín og kollagen úr þorskroði. Framleiðslan hófst haustið 2020 og var unnið úr 1.000 tonnum af roði á fyrstu 12 mánuðunum. Afurðirnar eru seldar til Asíu og Evrópu og eru meðal annars notaðar í matvæli, heilsufæði, fæðubótarefni, snyrtivörur og lyf.

Á síðasta aðalfundi félagsins voru gerðar breytingar á stjórn félagsins og er hún nú skipuð af Tómasi Þór Eiríkssyni formanni, Einari Benediktssyni, Ingu Jónu Friðgeirsdóttur, Jakobi Bjarnasyni og Miquel Junca.