*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Fólk 9. nóvember 2021 15:11

Erla stýrir Marine Collagen

Erla Ósk Pétursdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri hjá Marine Collagen, sem framleiðir gelatín og kollagen úr þorskroði.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Erla Ósk Pétursdóttir hefur hafið störf sem framkvæmdastjóri hjá Marine Collagen. Erla Ósk hefur undanfarin sex ár starfað hjá útgerðarfélaginu Vísi í Grindavík, nú síðast sem mannauðsstjóri en þar áður var hún framkvæmdastjóri Codland. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Hún er með BA gráðu í hagfræði og tölvunarfræði frá Macalester College í Minnesota-ríki í Bandaríkjunum og stundar MBA nám við Háskólann í Reykjavík.

Erla Ósk er uppalinn Grindvíkingur sem hefur áhuga á að rækta líkama og sál. Hún stundar crossfit og jóga ásamt því að syngja með kvennakórnum Grindavíkurdætrum.  Í fyrra bættist svo golfið við en það er sameiginlegt áhugamál allrar fjölskyldunnar. Erla Ósk er gift Andrew Wissler fjármálastjóra og eiga þau þrjá drengi.

Marine Collagen er framleiðslufyrirtæki í eigu Brims, Samherja, Vísis og Þorbjarnar. Félagið, sem er í Grindavík, framleiðir gelatín og kollagen úr þorskroði. Framleiðslan hófst haustið 2020 og var unnið úr 1.000 tonnum af roði á fyrstu 12 mánuðunum. Afurðirnar eru seldar til Asíu og Evrópu og eru meðal annars notaðar í matvæli, heilsufæði, fæðubótarefni, snyrtivörur og lyf.

Á síðasta aðalfundi félagsins voru gerðar breytingar á stjórn félagsins og er hún nú skipuð af Tómasi Þór Eiríkssyni formanni, Einari Benediktssyni, Ingu Jónu Friðgeirsdóttur, Jakobi Bjarnasyni og Miquel Junca.