Þrátt fyrir gjaldeyrishöft, pólitískan óróleika og skattahækkanir að undanförnu hefur áhugi á Íslandi sem kosti fyrir erlenda fjárfesta vaxið mikið eftir hrun, að sögn Þórðar Hilmarssonar, framkvæmdastjóra Íslandsstofu. „Við finnum fyrir auknum áhuga og fyrirspurnum úr margvíslegum atvinnugreinum. Fyrirspurnum í orkuiðnaði fjölgar jafnt og þétt auk þess sem nýr iðnaður hefur komið inn á okkar borð. Það sem er jákvætt er að það sem voru fyrirspurnir fyrir tólf til átján mánuðum er orðið að raunverulegri fjárfestingu nú,“ segir Þórður.

Þórður H. Hilmarsson, forstöðumaður erlendar fjárfestingar  hjá Íslandsstofu.
Þórður H. Hilmarsson, forstöðumaður erlendar fjárfestingar hjá Íslandsstofu.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Hann nefnir sem dæmi minkarækt á jörðinni Héraðsdal í Skagafirði. Þar hafa danskir loðdýrabændur sett upp minkabú. Þórður segir erlenda fjárfesta, m.a. frá Danmörku og Hollandi, hafa sýnt því áhuga að undanförnu að koma með fé inn í loðdýraræktina. „Minkarækt er nú ekki alltaf til umræðu hér á landi en þessi geiri hefur verið að ná gríðarlega góðum árangri að undanförnu. Erlendir fjárfestar virðast taka mun betur eftir þeim tækifærum sem felast í þessum iðnaði heldur en Íslendingar. Það er jákvætt að fá erlenda fjárfestingu inn í þennan iðnað.“ Þórður segir þennan aukna áhuga á minkarækt ekki aðeins vera tilkominn vegna veikrar krónu og þar með lágs framleiðslukostnaðar, heldur ekki síður því að skinn frá Íslandi hafi verið að seljast á hæsta verði á erlendum mörkuðum. „Iðnaðurinn hér á landi hefur orð á sér fyrir að vera gæðaiðnaður og ekki síst þess vegna er áhuginn að vaxa,“ segir Þórður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.