Bein fjárfesting erlendar aðila hér á landi nam 153 milljörðum króna í fyrra og hefur aldrei verið meiri og jókst um 296% frá árinu á undan, segir greiningardeild Glitnis.

?Þetta er margfalt meiri vöxtur í erlendri fjárfestingu en mældist í sama tíma í OECD löndunum. Vöxturinn þar var samt sögulega mjög mikill eða 27% á milli ára og nam erlenda fjárfestingin í OECD löndunum 622 milljörðum dollara í fyrra samkvæmt skýrslu sem OECD birti fyrir skömmu," segir greiningardeildin.

Í fyrra var mest af beinni erlendri fjárfestingu, innan OECD ríkjanna, Bretlandi en hún nam 165 milljörðum dollara og hefur aldrei verið meiri.

?Tengist hún fjárhagslegri endurskipulagningu alþjóðlegra fyrirtækja á borð við Shell. Einnig er skýringin milliríkjasameiningar og -yfirtökur á fyrirtækjum. Leiða má líkur að því að hin mikla fjárfesting erlendra aðila hér á landi á síðastliðnu ári tengist hræringum á innlendum fjármálamarkaði fyrst og fremst," segir greiningardeildin.

Hún segir að þáttur stóriðjunnar er þarna sennilega einnig nokkur en þó minni en ætla mætti í fyrstu. ?Skipting þessi er þó ekki alveg ljós en Seðlabankinn mun síðar í þessari viku birta sundurliðun á beinni erlendri fjárfestingu á síðastliðnu ári á milli atvinnuvega og landa en líklegt er að hér sé að einhverju marki um að ræða eignarhaldsfélög Íslendinga sem skrásett eru erlendis," segir greiningardeildin.

Ef litið er út fyrir OECD löndin var mest af beinni erlendri fjárfestingu í Kína en þar fjárfestu erlendir aðilar fyrir um 72 milljarða dollara og hefur hún aldrei verið meir en á heimsvísu er fjárfesting mest í Bandaríkjunum og Bretlandi.