Hlutdeild erlendra aðila meðal hluthafa félaga í Kauphöll Íslands er með allra lægsta móti nú um stundir. Samkvæmt upplýsingum frá Kauphöll Íslands er hlutdeild erlendra aðila nú um 5% af markaðsvirði skráðra bréfa. Listi yfir stærstu hluthafa í hverju félagi fyrir sig segir áþekka sögu, þar sem erlendir aðilar eru alla jafna lítt áberandi.

Vonast eftir milljarða innflæði með nýrri flokkun

Vonir standa til að hlutfall erlenda fjárfesta taki að rísa á ný með haustinu við það að Ísland verði fært upp í flokk nýmarkaðsríkja hjá FTSE. Fjölmargir fjárfestingasjóðir víða um heim byggja fjárfestingar sínar á flokkun FTSE og því standa vonir til að töluvert innflæði verði að utan inn á íslenskan hlutabréfamarkað með endurflokkuninni.

Nú um stundir er hins vegar ekki um auðugan garð að gresja þegar rýnt er í erlent eignarhald í kauphöllinni út frá listum yfir tuttugu stærstu hluthafa skráðra félaga. Í 15 félögum af 25 félögum á aðal- og First North markaðnum um mánaðamótin og úttektin nær til var enginn erlendur fjárfestir á listanum yfir tuttugu stærstu hluthafana.

Stór erlend fjárfestingafélög og sjóðir sem voru um tíma áberandi í Kauphöllinni á borð við Eaton Vance, Miton Group og Landsdowne hafa á síðustu árum horfið af listum yfir stærstu hluthafa skráðra félaga. Þá seldu erlendir fjárfestar sig að mestu út úr Arion banka en áttu fram að því hátt í helmingshlut í bankanum.

Icelandair sker sig úr

Icelandair er sem stendur eina skráða félagið í Kauphöllinni þar sem erlendur aðili er stærsti hluthafinn. Bandaríska fjárfestingafélagið Bain Capital fer með 15% hlut í Icelandair. Félagið greiddi um átta milljarða króna fyrir hlutinn sumarið 2021 á genginu 1,43 krónur á hlut og fékk um leið inn fulltrúa í stjórn félagsins. Öldungadeildarþingmaðurinn og forsetaframbjóðandinn Mitt Romney er einn stofnenda Bain Capital en félagið hefur m.a. fjárfest í nokkrum heimsþekktum flugfélögum.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar.