Fjárfesting Íslendinga erlendis nam 439 milljörðum króna í fyrra og hefur aldrei verið meiri, segir greiningardeild Glitnis.

?Fjárfestingin ríflega tvöfaldaðist frá árinu áður þegar hún var tæplega 180 milljarðar króna og fimmtánfaldaðist frá árinu 2003 en þá var hún 29 milljarðar króna. Bein fjárfesting Íslendinga erlendis var litlu minni en fjárfestingar nágranna okkar Dana utan Danmerkur voru í fyrra sem þó búa í ríflega 15 sinnum stærra hagkerfi," segir greiningardeildin. Bein erlend fjárfesting Dana nam 508 milljörðum króna í fyrra.

?Ísland var í fyrra í hinu fræga 16. sæti á meðal OECD ríkjanna í beinum fjárfestingum erlendis samkvæmt nýlegri skýrslu OECD. Þetta er í raun ótrúlegt í ljósi þess að Ísland er langminnsta OECD ríkið. Fjárfestum við meira beint erlendis í fyrra en t.d. nágrannar okkar Finnar og Norðmenn. En Frakkar voru iðnastir við beinar fjárfestingar erlendis í fyrra," segir greiningardeildin.

Beina fjárfesting Frakka erlendis nam í fyrra um 7.284 milljörðum króna. Greiningardeildin segir ástæðuna vera að þar hafi stundaðar fáar en mjög stórar yfirtökur á fyrirtækjum. Hollendingar og Bretar verma svo annað og þriðja sætið.

?Þessar miklu beinu fjárfestingar Íslendinga erlendis í fyrra skýrast að stærstum hluta af sókn íslenskra fjármálafyrirtækja inn á erlenda markaði. Meðal fjárfestinga þar eru kaup Kaupþings Banka á Singer & Fridlander, Bakkavarar á Geest og Actavis á Amide og Alpharma. Í ljósi ofangreinds sést að það er ekki að ástæðulausu að þessi viðskipti hafa vakið athygli ytra," segir greiningardeildin.