Ódýrara reyndist fyrir ríkissjóð að fjármagna sig í erlendu skuldabréfaútboði því sem fram fór í vikunni heldur en á innlendum markaði. Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka þar sem bent er á að heildarávöxtunarkrafa í áðurnefndu útboði hafi verið 4,99% en í útboði verðtryggðra ríkisbréfa í vikunni hafi ávöxtunarkrafan verið 6,35%.

„Þótt að bréfin séu ólík að sumu leyti vill þó þannig til að líftími þeirra er nánast sá sami. Því má segja að ríkissjóður njóti hagstæðari kjara á erlendri grundu, þrátt fyrir að greiða verulegt áhættuálag, en raunin er hér innanlands. Ástæðan er vitaskuld ólíkt vaxtaumhverfi, en grunnvextir í dollaranum eru nú í sögulegu lágmarki og er þess ekki vænst að þeir hækki hratt að nýju, enda efnahagsbati í Bandaríkjunum hægur og slaki verulegur enn sem komið er,“ segir í Morgunkorni.