Erlend fjármögnunarkjör íslensku bankanna hafa batnað töluvert undanfarna mánuði, þótt enn séu þau lakari en árið 2005, segir greiningardeild Landsbankans.

"Einn besti mælikvarðinn á þau markaðskjör sem bankarnir standa frammi fyrir á alþjóðamörkuðum eru svokölluð skuldatryggingarálög (e. CDS-spreads), en þau mæla hvað kostar fyrir fjárfesta að kaupa tryggingu gegn því að útgefandi viðkomandi skuldabréfs geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Kostnaðurinn er mældur sem álag ofan á grunnvexti," segir greiningardeildin.

Í Vegvísi þann 10. janúar var fjallað um fimm ára skuldatryggingarálag bankanna, en frá þeim tíma hefur álag á skuldatryggingar Landsbankans og Kaupþings lækkað um sex punkta, og Glitnis um fjóra punkta.

"Skuldatryggingar bankanna hafa lækkað jafnt og þétt frá birtingu 9 mánaða uppgjara þeirra. Nú er uppgjörstímabil fyrir síðasta ár að hefjast, Landsbankinn birtir fyrstur á morgun en hinir bankarnir birta næstkomandi þriðjudag. Forvitnilegt verður að sjá hvort ársuppgjör bankanna muni hafa áhrif á skuldatryggingarnar," segir greiningardeildin.

Hún segir að skuldatryggingarnar lækkuðu hjá öllum bönkunum fram að jólum en eftir skýrslu Standard & Poors hækkuðu skuldatryggingarnar lítið eitt.

"Í dag er skuldatryggingarálagið hins vegar orðið lægra en það var fyrir skýrslu S&P, bæði hjá Landsbankanum og Kaupþingi. Álag Glitnis er það sama og það var fyrir skýrslu S&P en Glitnir er eini íslenski bankinn með lánshæfismat frá S&P. Skuldatrygginarálag bankanna nú er 33 punktar hjá Landsbankanum, 33 punktar hjá Glitni og 44 punktar hjá Kaupþingi," segir greiningardeildin