Fjármagnsmarkaðir frusu í kjölfar gjaldþrots Lehman Brothers fyrir ári. Menn beinlínis óttuðust að fjármálakerfi heims væri við það að bræða úr sér.

Það varpar ljósi á alvarleika ástandsins að aðeins fjórum dögum eftir gjaldþrot Lehman var Henry Paulson, þáverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna, farinn að ræða um það innan stjórnkerfisins að hugsanlega yrði að setja herlög ef bankakerfið færi á hliðina og að hefðbundin viðskipti myndu leggjast af. Fall Lehmans hrinti af stað atburðarás sem fæstir sáu fyrir.

Virði fjölda peningamarkaðssjóða fór undir dal á hlut (e. broke the buck) og fréttir þess efnis urðu til þess að innistæðueigendur gerðu áhlaup á þá. Peningamarkaðssjóðir í Bandaríkjunum gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki fyrir skammtímafjármögnun einkageirans og ástandið olli því algjöru uppnámi.

Það sama gilti um markaðinn með skuldatryggingar (e. credit default swaps) og uppgjör afleiðuviðskipta sem Lehman hafði átt þátt í. Þetta varð meðal annars til þess að matsfyrirtækið S&P lækkaði lánshæfiseinkunn tryggingarisans AIG og reyndist það síðasti naglinn í líkkistu þess fyrirtækis.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið og þær afleiðingar sem hrun Lehman Brothers hafði á fjármálamarkaði út um allan heim í erlendri fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .