Bandaríski Seðlabankinn hefur nú, sem hluti af álagsprófum banka þar í landi, farið fram á að þeir bankar - sem fengið hafa neyðarlán frá seðlabankanum og ekki greitt þau að fullu til baka – leggi fram raunhæfa áætlun um það hvenær og hvernig þeir hyggist greiða lánin til baka.

Margri bankanna hafa sýnt mikinn vilja til að endurgreiða lánin. Eins og kunnugt er var í fyrra búinn til 700 milljarða dala sjóður sem notaður var til að veita bönkum og fjármálastofnunum neyðarlán, svo kallað Troubled Asset Relief Program eða TARP.

Helsta ástæða þess að bankarnir vilja endurgreiða lánin sem fyrst er að sögn fjölmiðla og greiningaraðila vestanhafs til að losna við þær kvaðir sem fylgja lánunum, s.s. takmörkunum á bónusgreiðslum til stjórnenda og millistjórnenda, takmarkanir á arðgreiðslum og annars konar starfsemi bankanna. Áður hefur verið fjallað um þetta á vef Viðskiptablaðsins og má sjá umfjöllun í tengdum fréttum hér að neðan.

Bankarnir þurfa þó að sýna fram á að þeir hafi bæði getu til að endurgreiða lánin, hvort sem er að hluta til eða allt lánin, og að þeir hafi burði til að starfa áfram eftir að hafa endurgreitt lánin. Helst er horft til eiginfjárstöðu bankanna í því sambandi.

Í maí s.l. framkvæmdi seðlabankinn álagspróf á 19 bankastofnunum sem þegið höfðu neyðarlán. Af þeim voru aðeins 9 sem höfðu getu til að endurgreiða hluta lánanna en gerðar voru kröfur til 10 banka um að þeir myndu auka eiginfjárhlutfall sitt. Af þessum 10 bönkum hafa 9 nú náð markmiðum seðlabankans, eina fjármálafyrirtækið sem ennþá er í „gjörgæslu“ ef svo má að orði komast er GMAC Financial Services.

Fjölmargir bankar greiddu inn á lánin í júní, þar má helst nefna JPMorgan og Goldman Sachs Group sem endurgreiddu stórar upphæðir. Samkvæmt Bloomberg fréttaveitunni undirbúa fjölmargir bankar að greiða stórar upphæðir inn á lánin fyrir áramót.

Reuters fréttastofan greinir hins vegar frá því að bankar á borð við Bank of America, Citigroup, PNC Financial Services Group, SunTrust og Wells Fargo uppfylli ekki skilyrði seðlabankans til að geta endurgreitt „stórar upphæðir“ eins og það er orðað í frétt Reuters, inn á lánin. Því er talið að ólíklegt að þeir fái heimild til að endurgreiða fyrir áramót.

Í tilfelli Citigroup er þetta enn flóknara þar sem bandarík yfirvöld eiga ráðandi hlut í bankanum (eftir að hafa tekið hluta hans yfir í fyrra) auk þess  að eiga mikinn fjölda skuldabréfa bankans. Samkvæmt Reuters standa þó yfir viðræður um að aðrir hluthafar bankans kaupi ríkið út.