Búist er við því að bandaríski lyfjaframleiðandinn Warner Chilcott tilkynni í dag um 3 milljarða dala yfirtöku á lyfjafyrirtækinu Procter & Gamble, sem sérhæfir sig lyfseðilsskyldum lyfjum.

Frá þessu var greint í Wall Street Journal (WSJ) í gær en að sögn blaðsins þykir þetta gefa til kynna að markaðir fyrir skuldsett kaup séu að opnast á ný.

Að sögn WSJ munu sex stórir bankar koma að yfirtökunni undir forystu JP Morgan og Bank of America. Aðrir bankar sem  koma að málinu eru Credit Suisse, Citigroup, Barclays og Morgan Stanley. Talið er að bankarnir veiti félaginu sjóðstreymislán (e. leveraged loan) fyrir um 4 milljarða dali. Þar af fara sem fyrr segir 3 milljarða dala í kaupin á Procter & Gamble en loks fer 1 milljarður dala í endurfjármögnun vegna skulda Warner Chilcott.

Hagkvæmt fyrir bankana

Að sögn WSJ er umrædd yfirtaka með stærri viðskiptum á annars rólegu yfirtökusumri, eins og það er orðað í frétt blaðsins. Þá segir blaðið að ef til vill verði stærstu áhrifin þau að markaðurinn mun í framhaldinu kalla eftir fleiri skuldsettum yfirtökum, sem hafa að mestu legið niðri frá því um miðjan september síðastliðinn – eða allt frá því að Lehman Brothers varð gjaldþrota. Síðan þá hafa einungis félög með gott sjóðsstreymi góða lánshæfiseinkunn getað stundað kaup á öðrum félögum.

Fram kemur í frétt WSJ að enginn fyrrnefndra banka hafi viljað vera einn ábyrgur fyrir láninu. „Hins vegar vildi enginn þeirra missa af þessu,“ hefur blaðið eftir ónafngreindum viðmælanda sínum.

Það sem helst hvetur bankana til að taka þátt í láninu er að þeir geta, miðað við núverandi aðstæður, rukkað Warner Chilcott hærra sölutryggingagjald en ella þrátt fyrir að veita lán með lágum vöxtum. Stýrivextir í Bandaríkjunum eru nú nálægt núlli, sem þýðir að bankarnir greiða lítið sem ekkert fyrir fjármagnið, en þar sem félagið hefur ekki lánshæfiseinkunn sem þarf til að bera, þarf það að greiða svokallað sölutryggingagjald. Að sögn WSJ er heildarkostnaðurinn við lántökuna þó minni með þessum hætti.

Fjórða stærsta sjóðstreymislánið á þessu ári

Fyrirhugað sjóðstreymislán verður að sögn WSJ fjórða stærsta lán sinnar tegundar í Bandaríkjunum á þessu ári og það stærsta ef farið er út fyrir Bandaríkin.

Til gamans má geta að stærsta lán af þessari tegund sem veitt hefur verið á þessu ári var þegar sælgætisframleiðandinn Mars tilkynnti um kaup á öðrum sælgætisframleiðanda, Wrigley fyrir um 22 milljarða dali.

Sjóðstreymislán eru oftar en ekki sambankalán sem veitt eru fyrirtækjum sem annað hvort hafa ekki nægilega góða lánshæfiseinkunn matsfyrirtækja (og eru á leið í skuldsetta yfirtöku) eða eru þegar það skuldug að erfitt er að veita þeim hefðbundin lán.